Bjarnþór Sverrisson í viðtali BB

Ólst upp á fótboltavellinum

„Ég ætla ekkert að verða stór. Ég ætla bara að verða betri en George Best í fótbolta.“ Svona svaraði Bjarnþór Sverrisson, betur þekktur sem Baddó, er hann var spurður hinnar algengu spurningar sem krakki. „Það eina sem ég hélt af því var nú að verða ekkert stór, en ég hafði alveg efnin í að verða betri en George Best,“ segir Baddó frá í opnuviðtali Bæjarins besta í dag. Er hann lýstir uppvaxtarárunum kemur í ljós að hann lifði fyrir fótbolta. „Strákarnir á Hlíðarveginum sem ég var að leika við þurftu alltaf að fara heim að fá sér að drekka. Á Hlíðarveginum í þá daga var allt í holum og pollum. Ég drakk bara úr drullupolli ef ég var þyrstur og hélt svo áfram að sparka,“ segir Baddó frá.

 

 

„Á veturna, þegar það var mikill snjór og erfitt að sparka, æfði ég mig svo mjög mikið á ljósastaurum. Ég kastaði boltanum í þá og fór svo alltaf nær og nær til að æfa mig að skalla. Ég var búinn að blóðga báðar nasirnar á mér og sprengja á mér báðar varirnar en það skipti engu máli, ég hélt bara áfram.“

 

Þessi mikli fótboltaáhugi hefur fylgt honum eftir alla tíð. Aðspurður segist hann þó aldrei séð eftir því að hafa ekki fetað þá braut. Þrátt fyrir að hafa snúið baki við möguleikum á atvinnumennsku eru fótboltaskórnir ekki rykfallnir. Baddó hefur enn yndi af fótbolta, hefur tekið þátt í öllum Púkamótum frá upphafi og leikið á Pollamóti öldunga á Akureyri. Pollamótsleikirnir hafa farið fram undir merkjum liðsins Baddó United, svo nefnt eftir honum sjálfum.

 

Fundum blaðamanns og Baddó bar saman nokkrum dögum fyrir Púkamótið og þá leit ekki vel út með þáttöku hans á mótinu vegna veiks hjarta. „Þetta er níunda árið sem mótið er haldið og ég hef verið með alveg frá upphafi. Þorsteinn talaði við hjartalækninn í Reykjavík fyrir mig og fékk grænt ljós á það að ég mætti taka þátt ef ég væri bara í marki, þá reyndi ekki of mikið á hjartað. En eins og ég sagði við Þorstein er mér andskotans sama um þetta hjarta. Það væri fínt að drepast bara þarna á fótboltavellinum – ég ólst þar upp