Björn Helgasson

Harðverjar vild’ann hann ekki en KR-ingar feng’ann ekki

Viðtal BB við Björn Helgasson fyrir Púkamót 2005, birt með góðfúslegu leyfi Sigurjóns Sigurðssonar framkvæmdarstjóra BB.

– litið yfir litríkan og árangursríkan íþróttaferil Björns Helgasonar fv. íþróttafulltrúa á Ísafirði

Það verður vonandi ekki flokkað sem fordómar, þegar sagt er að afreksmaður í íþróttum sé ekki það fyrsta sem manni dettur í hug þegar Hnífsdalur er nefndur. Þetta litla þorp hefur frekar getið sér orð fyrir að ala af sér harða sjósóknara en langa lista yfir þá sem skarað hafa fram úr í íþróttum. Fólk sem komið er yfir miðjan aldur man þó eftir því að einn besti skíðamaður landsins á árum áður, Kristinn Benediktsson, er úr Hnífsdal.

Um helgina koma saman á Ísafirði helstu kempur sem att hafa kappi í fótbolta hér um slóðir gegnum tíðina. Svo skrítið sem það nú er, þá hafa komið héðan ótrúlega margir góðir fótboltamenn. Þeir halda nú Stóra Púkamótið hér og ætla að skemmta sér og sínum. Hér verða vonandi saman komnir margir glæstir kappar liðinnar aldar. Sá þeirra sem á einna glæstastan feril er Björn Helgason, sem skaraði fram úr allan sinn feril. Fyrir skömmu lét Björn af starfi íþrótta- og æskulýðsfulltrúa Ísafjarðarbæjar eftir áratuga starf.

Því var ekki úr vegi að kalla til þennan Vestrapúka. Hnífsdælinginn sjálfan. Og hann var ekki aðeins góður í fótbolta. Hann var einnig mikill skíðakappi. Nú, svo hefur hann spilað badminton um tíma, eða réttara sagt um áratuga skeið. Ekki er áhuginn á golfinu minni. Plássins vegna skulu ekki taldar upp fleiri íþróttagreinar. Við ákváðum að halda okkur að mestu við fótboltann og íþróttafulltrúann.

En hvernig stóð á því að þessi snaggaralegi Hnífsdælingur gat sér gott orð í fótbolta? Ekki voru góðar aðstæður þar til þess að búa til góðan íþróttamann?

„Jú, blessaður vertu. Við höfðum fjöll og snjó, sem var nóg til þess að búa til skíðamenn. Við áttum síðan Wembley, sem Ísfirðingar áttu ekki. Þessi litli völlur, sem ennþá er skammt utan og ofan til við frystihúsið í Hnífsdal, var mjög góður til síns brúks. Þar spiluðum við fótbolta á grasi meðan Ísfirðingar þurftu að spila á möl. Þar byrjaði ég að spila þegar ég var smágutti. Æfingar hófust tímanlega fyrir sjómannadaginn og þann dag var síðan keppt í fótbolta og frjálsum íþróttum. Ég man til dæmis eftir að hafa spilað með mörgum gömlum sjóhundum.“


Björn verður Vestramaður

– Ekki var neitt formlegt íþróttastarf í Hnífsdal þegar þú ert að alast upp?

„Nei, svo var ekki. Ég gekk ekki formlega í íþróttafélag fyrr en ég gekk í Vestra á Ísafirði þrettán ára gamall.“

– Hvað kom til að þú fórst inn eftir að æfa?

„Ætli ég hafi ekki verið framhleypnari en aðrir. Ég hafði einfaldlega áhuga á að leggja meira á mig og gaf því kost á mér. Eftir þetta var ég fastur maður í liðum á Ísafirði. Á svipuðum tíma byrjaði ég einnig að æfa skíði á Ísafirði.“

– Ekki gátu menn tekið strætó á þessum árum?

„Nei, á fótboltaæfingar fór maður hjólandi á milli en á skíðaæfingar þurfti maður að labba með skíðin og bakpokann. Þá labbaði maður frá Hnífsdal og upp á Seljalandsdal. Þá dvaldi maður á Dalnum yfir helgar og æfði stíft.“

– Af hverju valdirðu Vestra?

„Það fóru nokkrir kunningjar mínir á þessum tíma í Vestra og líka Guðmundur bróðir minn þannig að ég fylgdi þeim. Það var nú ekki flóknara. Seinna reyndi ég að ganga í Hörð en þeir vildu mig ekki.“

Harðverjar vildu hann ekki

– Ertu nú ekki að ýkja? Ég trúi því nú varla að þeir hafi ekki tekið þér fagnandi?

„Jú, svona var þetta bara. Það var nú frægt á sínum tíma. Ég var 17 eða 18 ára þegar þetta var. Ég æfði þá grimmt skíðin með Jóni Karli Sigurðssyni og fleiri Harðverjum og því kviknaði áhugi hjá mér að komast í þeirra félag. Ég fór í prentsmiðjuna til Gumma Ben [Guðmundur Benediktsson, síðar prentari í Reykjavík] og sagði honum af áhuga mínum og hvort ég gæti ekki gengið í Hörð. Hann hélt nú ekki! Hann sagði að í Herði væri nóg af góðum mönnum þannig að hann færi nú ekki að taka einn af þeim fáu sem eitthvað gætu í Vestra. Þetta sagði hann mér afdráttarlaust. Við Gummi höfðum nú marga hildina háð á fótboltavellinum og þar höfðu mæst stálin stinn.

Ég vissi nú aldrei hvort hann var að grínast en ég tók þetta svar hans mjög alvarlega og hugleiddi þetta aldrei aftur. Það var nú rétt hjá honum, að Vestri var á þessum tíma ekki með mjög gott lið. En það átti eftir að lagast og síðar áttum við um árabil mun betra lið en Hörður.“

– Var það þá rétt hjá Gumma Ben á þessum tíma að þú værir einn af fáum mönnum í Vestra sem gat eitthvað?

„Nei, ég er nú ekki sammála því. Það voru nú margir góðir menn á þessum árum. Ég var ekkert betri að upplagi en aðrir. Það sem gerði hins vegar gæfumuninn hjá mér var að ég æfði alla tíð mun meira og skipulegar en flestir aðrir. Í þá daga voru æfingar ekki eins skipulagðar og þær eru í dag. Ég fór því snemma að setja mér markmið í æfingum og reyndi að ná þeim. Með tímanum varð ég því auðvitað betri en þeir sem minna æfðu.“

Að setja sér markmið

– Hvernig æfingar voru það?

„Ég æfði mikið nákvæmnisæfingar. Sem dæmi má nefna, að ég æfði að skjóta í kassa. Það þykja kannski ekki merkilegar æfingar en þær skiluðu á endanum nákvæmari skotum. Síðan minnkaði ég kassana með tímanum til þess að ná ennþá meiri nákvæmni. Nú, skallaæfingar var hægt að æfa alls staðar, einnig að halda bolta á lofti og svo framvegis. Það þarf ekki merkilega aðstöðu til þess að geta æft einn og sér. Innanfótarskotin æfði ég mikið og náði góðum árangri á því sviði. Seinna þegar ég varð þjálfari lagði ég mikið upp úr tækniæfingum. Tæknin verður að vera til staðar ef menn ætla sér að verða góðir fótboltamenn. Bestu tækniæfingarnar náði ég ekki að tileinka mér fyrr en ég var kominn yfir tvítugt. Menn fæðast ekki góðir fótboltamenn. Það liggur að vísu misjafnlega létt fyrir mönnum að spila fótbolta. Góðir fótboltamenn verða hins vegar ekki til nema með þrotlausum æfingum.“

– Settir þú þér þá kannski það markmið að komast í landsliðið?

„Já, það er ekkert leyndarmál að ég setti mér það mark. Ég æfði nánast alla daga vikunnar til þess að ná þessu marki. Á meðan aðrir æfðu mest þrisvar í viku var ég kannski að æfa sex sinnum auk þess að spila einn leik.“

– Nú hlýtur það að hafa verið óðs manns æði hjá ungum manni á Ísafirði að ætla sér að komast í landslið?

„Já, kannski að einhverju leyti. Hins vegar voru nú menn á þessum árum frá minni stöðum. Skagamenn voru góðir á þessum tíma, Akureyringar, frá Vestmannaeyjum komu einhverjir og úr Keflavík, að ógleymdum Hafnfirðingum. Þá kallaðist það nú að vera utan af landi að vera úr Hafnarfirði. Það var því ekki óþekkt að landsliðsmenn eða pressuliðsmenn kæmu af landsbyggðinni.“

Landsliðskallið

– Hvenær fékkstu fyrsta tækifærið í landsliðshópnum?

„Það var nú hálfgerð tilviljun. Við vorum einu sinni sem oftar að spila til úrslita í annarri deildinni og að þessu sinni var leikurinn á milli ÍBÍ og ÍBA og fór fram á Akureyri. Þeir voru mjög sterkir á Akureyri. Þetta var árið 1958. Ég átti mjög góðan leik að flestra dómi. Alli Kalli [Albert Karl Sanders, síðar bæjarstjóri í Njarðvík] sagði að ég hefði verið svo léttur á mér að ég hefði ekki komið við völlinn og verið bókstaflega alls staðar. Það var mikið til í þessu hjá honum því þetta var nokkrum dögum eftir að ég eignaðist Helga son minn. Ég sveif því um af stolti.

Það var síðan tilviljun að Björgvin Schram formaður KSÍ var staddur á leiknum, og hann lét vita af því að þessi drengur frá Ísafirði yrði að fá tækifæri með pressuliðinu í leik gegn landsliðinu. Hlutirnir gerðust fljótt því nokkrum dögum seinna var ég kallaður suður í pressuleik og var svo heppinn að eiga aftur góðan leik. Það gerði það að verkum að ég komst inn í þann hóp sem næst stóð landsliðinu á næstu árum. Árið 1959 spilaði ég með landsliðinu. Ég var í liðinu sem gerði jafntefli við Dani á Idrætsparken 1-1. Við vorum yfir nánast allan tímann en þeir jöfnuðu á síðustu mínútunum. Ég var á bekknum og kom ekki inn á en þetta var samt ógleymanlegur leikur. Við fórum síðan til Noregs og lékum þar við heimamenn og þá spilaði ég með. Ég spilaði líka með B-landsliðinu þetta sumar í Færeyjum og þar kynntist ég mönnum úr Fram og sá kunningsskapur átti eftir að draga dilk á eftir sér síðar.“

– Nú á þessum voruð þið í ÍBÍ nánast á hverju ári að spila til úrslita um að komast upp í fyrstu deild, sem var efsta deildin á þeim árum. Það tókst hins vegar ekki fyrr en haustið 1961, ekki satt?

„Jú, þá tókst það loksins. Þá spiluðum við úrslitaleik við Keflavík á Laugardalsvelli og unnum þá stórt. Það var ákaflega eftirminnilegur leikur.“

Fyrsta deildin 1962

– Vera ykkar varð ekki löng í fyrstu deildinni?

„Nei, við náðum ekki nema einu stigi en við réðum hins vegar með þessu eina stigi hverjir urðu ekki Íslandsmeistarar það árið. Þessu eina stigi náðum við af Akurnesingum sem þá börðust eins og ávallt á toppnum. Þetta eina stig kostaði þá titilinn. Ég átti minn þátt í þeim leik því ég var settur sem frakki á Ríkarð Jónsson, þann fræga kappa. Ég náði að halda honum alveg niðri. Ég elti hann hvert sem hann fór og hann nánast fékk ekki boltann. Leiknum lauk með markalausu jafntefli og þeir urðu alveg orðlausir. Að tapa þarna stigi gegn neðsta liðinu á sínum eigin heimavelli þótti þeim ákaflega súrt í broti, svo ekki sé meira sagt.“

– Nú voruð þið lengi að berjast um fyrstudeildarsæti. Þegar þið síðan komist upp félluð þið strax aftur. Var svona mikill munur á deildunum eða voru sveiflurnar svona miklar á okkar liði á milli ára?

„Liðið á þessum árum var nokkuð gott. Við vorum við það að vinna tvo heimaleiki þetta sumar. Töpuðum þeim mjög naumt. Það vantaði í sjálfu sér ekki mikið upp á getuna. Það sem við höfðum hins vegar ekki var breiddin. Hana vantaði alveg þannig að þetta var frekar brothætt. Þá þekktist ekki að sækja menn annað tímabundið til þess að auka breiddina. Það voru engir í þessu liði nema heimamenn. Við hefðum ekki þurft að auka breiddina mjög mikið til þess að ná bærilegum árangri. Það þekktist bara ekki á þeim árum, því miður. Það var ekki bara hjá okkur. Í Reykjavík gerðu menn þetta ekki einu sinni.

Síðan voru aðstæður manna til æfinga mjög misjafnar. Af þessu liði sem spilaði í fyrstu deildinni 1962 voru sennilega ekki nema sex til sjö menn sem voru í góðri æfingu. Hluti af mannskapnum var með en lagði ekki mikið upp úr góðu formi.“

– Hvernig var undirbúningur ykkar fyrir þessa leiktíð?

„Við vorum þetta 6-8 sem æfðum af einhverju viti þann vetur. Mig minnir að Alli Kalli hafi stjórnað æfingum en um vorið réðum við Gunnar Gunnarsson [einnig þekktur skákmaður] úr Reykjavík sem þjálfara.“

Framarinn Björn

– Var þá ekki erfitt fyrir þá ykkar sem æfðu af meiri krafti að sætta ykkur við stöðu mála? Langaði ykkur ekki í stærri lið þar sem breiddin var meiri?

„Jú, sú hugsun leitaði á mig eftir að ég komst í landsliðshópinn, því get ég ekki neitað. Það kom líka að því að við Maja [María Gísladóttir, eiginkona Björns] ákváðum að gefa mér tækifæri í fótboltanum. Það var árið 1963 sem við tókum þá ákvörðun að flytja suður með okkar tvö börn og athuga hvað gæti orðið úr mér við betri aðstæður. Þegar suður kom gekk ég til liðs við Fram.“

– Nú var á þessum árum mikill og náinn vinskapur á milli KR og ÍBÍ. Hvers vegna í ósköpunum fórstu ekki í KR, sem þá var besta liðið?

„Já, þú segir nokkuð. KR-ingarnir höfðu oft boðið mér að koma til sín enda átti ég marga vini þar. Þeir voru okkar vinalið í Reykjavík. Við fengum að haga okkur eins og heima hjá okkur út í KR. Blöðin slógu því líka föstu á þessum tíma að ég færi í KR. Eitt blaðið birti um það frétt að ég væri genginn til liðs við þá. Þeir buðu mér vinnu og íbúð en Framarar gerðu það líka.

Hins vegar varð kunningsskapur minn við ungu Framarana þyngri á metunum. Ég þurfti nú ekki á vinnunni halda því hana útvegaði ég sjálfur. Þá var ég byrjaður að mála og var á mjög góðum stað. En loforðin með íbúðina stóðust aldrei og ég útvegaði mér sjálfur húsnæði til bráðabirgða hjá frænda mínum. Það húsnæði misstum við síðan fljótlega og þá var mín kona ekki mjög ánægð, sem vonlegt var. Við höfðum áður en við fluttum suður keypt okkur íbúð hérna í Aðalstrætinu og þegar við misstum húsnæðið syðra ákváðum við bara að kveðja þennan Reykjavíkurdraum og halda vestur aftur. Ekki var nú aðkoman góð hér, haustið 1963, því þá var búið að taka af okkur völlinn við Grund og Torfnesvöllurinn var ekki vígður fyrr en árið eftir.“

– Þú hefur ekki bankað upp á hjá KR áður en þú fluttir vestur?

„Nei, ég gerði það ekki. Ég átti mjög gott tímabil með Fram og fékk góða dóma. Ég er sannfærður að ég hefði flogið inn í KR-liðið. Það reyndi hins vegar aldrei á það. Við tókum bara þessa ákvörðun og við hana stóðum við Maja.“

– Sástu eftir því?

„Nei, ég velti mér aldrei upp úr því. Ég fór strax inn í hringiðuna hér vestra. Það var nóg að vinna og því hugsaði ég aldrei um þetta. Hins vegar var mjög erfitt að halda dampi í landsliðinu. Ég þurfti auðvitað að sækja æfingar suður og fara í þá leiki sem ég var valinn til að taka þátt í. Í þá daga urðu menn að kosta allt sjálfir og það tók auðvitað sinn toll. Fjölskyldan stækkaði og á endanum varð maður að hætta að hugsa um þessa hluti og í staðinn gaf maður sig bara meira að spilamennskunni með ÍBÍ.“

Heim á ný

– Við áttum mjög frambærileg knattspyrnulið á sjöunda og áttunda áratugnum og fram á þann níunda.

„Já, það er alveg rétt. Það voru ekki mörg bæjarfélögin sem áttu betri lið. Við vorum ávallt að berjast við liðin frá stærri bæjarfélögunum og höfðum oftast betur. Við vorum í fjöldamörg ár á bilinu 12.-16. sæti. Eitt og eitt ár vorum við ofar og eitt og eitt neðar.“

– En nú er öldin önnur.

„Já, ég verð að segja það eins og er, að ég veit ekki hvað raunverulega er að gerast hér. Því miður höfum við ekki átt frambærilegt lið í mörg ár. Ég held að hluti skýringarinnar sé sú, að ungir menn hafa á undanförnum árum verið að fara héðan alltof snemma. Kornungir menn hafa verið að fara héðan til þess að spila í öðrum eða þriðja flokki hjá öðrum liðum í stað þess að öðlast meiri þroska hér með því að spila með meistaraflokki. Í stað þess að öðlast reynslu hér, þá týnast menn í stóru liðunum. En þetta er auðvitað bara hluti af skýringunni.

Þetta er grátlegt, á sama tíma og aðstaðan hefur verið að batna. Þegar grasvöllurinn kom 1980 urðu miklar framfarir fyrstu árin á eftir. Síðan fengum við loksins íþróttahús og ennþá síðar gervigrasvöll og nú er svo komið að við höfum aðstöðu eins og hún best gerist. Árangurinn hefur hins vegar látið á sér standa. Það er eitthvað að klikka í vinnunni okkar og við verðum bara að finna út úr því hvað það er. Það er auðvitað engin hemja að Ísfirðingar eigi ekki fótboltalið í fremstu röð. Því miður virðist mér sömu hlutir hafa verið að gerast í alpagreinunum hjá skíðamönnunum. Þar hafa ekki skilað sér toppmenn lengi. Það er hlutur sem við getum ekki og megum ekki sætta okkur við. Að mínu viti er það eitt af nauðsynlegustu verkefnum okkar að komast að því hvers vegna við erum ekki að skila afreksmönnum í fótbolta og alpagreinum.“

Hvar eru afreksmennirnir?

– Er íþróttaiðkun barna orðin of einsleit? Hér á árum áður voru menn að stunda margar íþróttagreinar. Með hækkandi æfingagjöldum og aukinni afþreyingu hefur þetta breyst. Getur þetta ekki verið hluti af skýringunni?

„Jú, þetta er eflaust hluti af skýringunni. Ég er sannfærður um að til 14-15 ára aldurs er það engum til skaða að stunda fleiri en eina íþróttagrein. Þannig var það á þeim árum sem hér urðu til góðir íþróttamenn. Á þeim árum urðu menn ekki góðir hér vegna þess að aðstæður til æfinga væru góðar. Menn urðu góðir þrátt fyrir æfingaaðstæður. Við verðum að gera börnum kleift að æfa fleiri greinar. Þar liggur hluti vandamálsins. Framboðið á afþreyingu er hins vegar orðið alveg yfirgengilegt, en það er líka vandamál á öðrum stöðum. Þjálfarar þurfa að mínu viti að gefa meira af sér. Þjálfun felst ekki bara í því að mæta á æfingar samkvæmt stundaskrá. Þjálfari þarf líka að fylgjast með á öðrum tímum og öðlast virðingu þeirra sem hann þjálfar. Hópurinn verður sterkari heild fyrir vikið. Samstaðan og samvinnan verður betri. Menn verða líka að hafa gaman af hlutunum.“

– Hvenær endaði þinn keppnisferill í fótboltanum?

„Ég spilaði á fullu hér heima til ársins 1977, að mig minnir.“

– Nú var það sagt að þú hefðir stefnt að því að vera svo lengi í boltanum að þú gætir spilað í meistaraflokki með Helga syni þínum [efnilegur fótboltamaður sem valdi að hasla sér völl sem söngvari og leikari]. Var það rétt?

„Einhvern tímann var þetta nú sagt. Það hefði nú alveg getað orðið. Ég þjálfaði Helga í yngri flokkum og ég man hvað honum þótti það erfitt. Ég gerði ríkar kröfur til hans, sem og annarra. Hann var í mjög sterkum árgangi. Þeir sem fæddust á árunum undir 1960 mynduðu alveg ótrúlega sterkan kjarna. Við hefðum nú alveg getað spilað saman ef hann hefði haldið sig við boltann. Ég spilaði til dæmis með Krissa [Kristni Kristjánssyni], jafnaldra hans í meistaraflokki með Vestra.“

Venjari í Færeyjum

– Síðar gerðist þú þjálfari í Færeyjum og þá tókstu fram skóna að nýju?

„Já, það var mikið ævintýri. Ég þjálfaði meistaraflokk hér á Ísafirði eitt ár, 1975, en hafði ekki meiri reynslu af þjálfun meistaraflokks. Gísli Magnússon frá Vestmannaeyjum, sem hér var einu sinni þjálfari, fór síðar til Færeyja að þjálfa. Með okkur tókst vinátta og hann nefndi það nokkrum sinnum við mig að ég ætti að koma til Færeyja og þjálfa.

Eitt skiptið, í byrjun árs 1979, svaraði ég því líklega og skömmu síðar hringir hann og segir að hann sé búinn að ráða mig sem þjálfara í Skála. Ég fékk bara nokkra daga til þess að hugsa mig um og á endanum sló ég til. Ég fékk reyndar ekki að fara fyrr en búið var að ferma Hörpu dóttur mína. Ég fór þangað þegar liðið var á vetur og hélt mér í formi með þjálfuninni. Gísli sagði hins vegar að ég myndi ekki þurfa að spila. Þegar kom að fyrsta leiknum, þá stillti ég upp liði og að sjálfsögðu var ég ekki í því. Þá varð stjórnin ósátt og sagði að ég ætti að vera í liðinu. Það væri ekki ástæða til annars og Gísli hefði sagt við þá að ég myndi spila ef þörf væri á. Endirinn varð sá að ég spilaði alla leikina það sumarið, 44 ára gamall.

Þeir vildu framlengja við mig samninginn og ég tók vel í það. Hins vegar fékk ég á þessum tíma hringingu að heiman þar sem mér var tjáð að starf íþróttafulltrúa væri laust og ég var hvattur til að sækja um. Ég sótti um en hafði nú ekki mikla trú á því að ég yrði ráðinn. Því sagði ég við vini mína í Skála að ég kæmi aftur með þeim fyrirvara að fengi ég embættið kæmist ég ekki. Nú, ég var ráðinn og tók við starfinu 1. nóvember 1979. Ég varð því að tilkynna vinum mínum í Færeyjum að ég kæmi ekki aftur. Andrass Danielsen og Reinhold Rassmussen sem störfuðu í íþróttanefndinni í Skála höfðu margsinnis rætt það við mig um sumarið að gaman væri að koma á samstarfi milli Ísafjarðar og Skála, og fannst okkur öllum þetta vera hin besta hugmynd. Þegar það var ákveðið að ég yrði starfsmaður Ísafjarðarkaupstaðar varð úr að ég ræddi við bæjarráð um að koma á þessu samstarfi. Síðan samþykkir bæjarráð Ísafjarðar í janúar 1980 að koma á vinabæjarsamstarfi og var ákveðið að fara til Færeyja til að stafðesta þetta. Undir forystu Guðmundar Ingólfssonar var farið í lok apríl. Það var ákveðið að Íþróttabandalagið sendi knattspyrnulið með í sömu ferð og þar var ég fararstjóri. Þetta vinarbæjarsamstarf varð að veruleika, mér til mikillar ánægju. Í Færeyjum eignaðist ég marga mjög góða vini sem ég hef samband við enn þann dag í dag.“

Íþrótta- og æskulýðsfulltrúi

– Þegar þú ert tekinn við embætti íþróttafulltrúa, þá breytist nálgun þín við íþróttirnar. Ekki gekk nú allt átakalaust. Ég þykist muna eftir miklum umræðum sem áttu sér stað þegar grasvöllurinn hafði verið tekinn í notkun árið 1980. Ekki höfðu nú allir skilning á því að ekki væri hægt að æfa og spila ótakmarkað á vellinum?

„Já, það voru skemmtilegir átakafundir þegar þurfti að koma mönnum í skilning um það. Áður höfðu menn bara æft og spilað á möl. Þá þurfti ekki að spá í tímann. Þegar grasið kom varð að hugsa allt upp á nýtt. Það tók á að fá menn til að skilja það, að ef völlurinn eyðilegðist, þá hefðu menn ekkert. Það tókst nú með tímanum. Álagið á Torfnesvöllinn var samt óskaplegt. Mun meira en marga sambærilegra velli á landinu. Aðrir vallarstjórar töldu mig brjálaðan að leyfa svo mikla notkun á honum.. Samt sem áður tókst okkur að halda honum í furðugóðu horfi. Þegar gervigrasvöllurinn kom síðan varð mikil bylting. Þá lagði ég mikla áherslu á að sá völlur yrði öllum opinn og þar fengju menn að sparka eins og þeir mögulega gætu. Það var rétt mat enda er sá völlur gríðarlega mikið notaður af íþróttafólki á öllum aldri. Þar ganga skipulegar æfingar fyrir og aðrir bíða á meðan. Samstarfið á þeim velli gengur mjög vel.“

Skíðamaðurinn Björn

– Eigum við að tala um skíðaferilinn?

„Já, það voru góð ár. Ég byrjaði 15 ára gamall að keppa og var nokkuð lengi að. Síðasta stórmótið sem ég tók þátt í var að mig minnir 1968. Á landsmótum í þá daga voru stundum allt að 100 keppendur í svigi. Að hugsa sér! Tímarnir hafa breyst. Ég var nokkuð lunkinn við að standa niður.

Í þá daga voru nú ekki komnar lyftur og menn urðu að labba upp brekkurnar með skíðin á öxlinni. Minnisstæðast hvað það varðar er þó eitt landsmótið sem haldið var á Dalnum og startið var uppi í Skál þar sem síðar var endastöð á Efri lyftunni svokölluðu á Dalnum. Við urðum að labba upp tvær ferðir og þótti auðvitað nóg um. Í þá daga var Eysteinn Þórðarson úr Reykjavík einn af okkar sterkustu skíðamönnum. Hann þurfti hins vegar að labba þrjár ferðir upp fjallið því tímatökutækin virkuðu ekki í einni ferðinni. Mikið óskaplega vorkenndi ég honum.

Ég vann nú nokkur mót hér heima en á landsvísu var ég aldrei framar en í þriðja sæti. Var mikið í sætum 5-7. Hins vegar var ég fastur maður í flokkasvigsveit Ísafjarðar og sem slíkur vann ég marga Íslandsmeistaratitla. Við vorum sérfræðingar í þessari grein hér. Það voru fjórir menn í hverri sveit og samanlagður tími allra gilti. Því urðu menn að sýna festu og komast niður því ef einhver var úr leik var allt liðið úr leik. Í þá daga lögðu menn mikið á sig til þess að standa með sínu liði.

Eitt árið var landsmótið tvískipt. Alpagreinarnar voru fyrir sunnan en norrænu greinarnar voru fyrir norðan. Þegar kom að flokkasviginu vantaði einn mann hjá okkur. Oddur Pétursson var mjög fjölhæfur skíðamaður og var að keppa fyrir norðan. Við hringdum í hann og hann skaust suður á milli greina og vann með okkur flokkasvigið. Menn töldu þetta ekki eftir sér.“

Vestri og Hörður

– Við getum ekki hætt þessu spjalli án þess að minnast á leikjanna á milli Vestra og Harðar?

„Nei, þeir voru stundum harðir þeir leikir. Það var mjög einkennileg en skemmtileg tilfinning þegar við spiluðum þessa leiki þegar leið á sumarið. Þá höfðum við kannski verið að æfa og spila allt sumarið undir merkjum ÍBÍ en þurftum nú að útkljá hvaða lið yrði Vestfjarðameistari. Eins og ég sagði áðan æfði ég lengst af mjög mikið og var því um tíma betri en margir aðrir.

Þrátt fyrir að fast væri spilað í þessum leikjum man ég nú ekki eftir neinum sérstökum eftirmálum. Menn sættust yfirleitt í leikslok. Þegar ég var farinn að eldast datt yngri mönnunum það stundum í hug að taka gamla manninn í gegn og gekk þá á ýmsu. Ég var svo heppinn að spila með mönnum úr nærri þremur kynslóðum fótboltamanna. Margir þeirra voru mjög góðir og allir voru þeir verðugir andstæðingar.“

Fegurð og fótbolti

– Í lokin verð ég að bera undir þig lífseiga sögu, sem gengið hefur hér áratugum saman. Er það satt, að á úrslitaleiknum á Akureyri forðum sem áður er nefndur hafi Bryndís Schram, þá fegurðardrottning, verið á leiknum með Björgvin föður sínum og þið hafið keppst um að spila á kantinum þar sem hún stóð?

„Já, þessi saga er góð og engin ástæða til þess að láta hana deyja. Sannleikurinn er sá, að Einar Valur Kristjánsson heitinn spilaði þá með okkur og var á kantinum. Þegar hann áttaði sig á því að fegurðardrottning Íslands var á línunni, þá héldu honum engin bönd. Hann tók margar ótrúlegar rispur eftir kantinum og ekki allar nauðsynlegar. Því fylgdu margar fettur og brettur. Þegar hins vegar átti að skipta honum út af neitaði hann alveg að fara af vellinum. Hann vildi halda sínu verki áfram. Sagan segir að Alli Kalli hafi þurft að koma honum af vellinum. Einar Valur hló nú að þessu þegar hann að lokum fór af vellinum. Það fór hins vegar ekki á milli mála að vera Bryndísar hafði mikil áhrif á hann og kannski fleiri af okkur.“

– Eins og áður kom fram hefur árangur okkar í þínum aðalgreinum, fótbolta og alpagreinum, ekki verið upp á sitt besta á undanförnum árum. Er góður árangur ekki nauðsynlegur hverju bæjarfélagi?

„Jú, það er málið. Það eru hverju samfélagi nauðsynlegt að eiga íþróttafólk sem skarar fram úr. Það þjappar fólki saman. Sérstaklega í íþróttagreinum sem stundaðar hafa verið hér í marga áratugi eins og skíði og fótbolta. Hver man ekki eftir stemningunni hér í bænum þegar fótboltamenn okkar voru upp á sitt besta árin 1981-1984? Þá var um fátt meira rætt. Bærinn ljómaði og stemmningin var einstök. Þá var gaman að lifa. Það er svona upplifun sem hvert bæjarfélag þarf á að halda og því verðum við að leggja áherslu á að okkur takist að rífa upp þessar rótgrónu íþróttagreinar.“

– – –

Það verður vonandi ekki flokkað sem þvermóðska þó að viðmælandi Björns viðurkenni ekki fyrr en nú, aldarfjórðungi síðar, að sennilega, eða í það minnsta kannski, hefur hann haft að einhverju leyti rétt fyrir sér með tímafjölda á grasvellinum á Torfnesi.

Það var gaman að fylgjast með Birni á fótboltavellinum. Hann var góður fótboltamaður. Jafnvel þó að hann væri Vestramaður, eða þannig.

Eitt geta allir verið sammála um: Hörður og Vestri áttu fallegustu búninga á landinu og þó víðar væri leitað. Þrátt fyrir allt umrót og breytingar sem átt hafa sér stað á liðnum áratugum get ég aldrei skilið eitt: Af hverju í ósköpunum nýta menn í dag ekki þessa fallegu og sérstöku búninga? Óskaplega er það rík íþróttahreyfing sem getur látið slík djásn liggja ónýtt. Að fortíð skal hyggja er framtíð skal byggja.

Áfram ÍBÍ, áfram Vestri, áfram Hörður! Taka þetta nú strákar!

– Halldór Jónsson.