Við ætlum að byrja mótið föstudaginn 27. júní klukkan 16.00 með formlegri opnun Jóa Torfa. Að henni lokinni hefjast ótrúlega spennandi leikir milli Dokku-, Króks-, Hlíðarvegs-, Eyrar-, Holt- og Fjarðarpúka. Eftir leiki föstudagsins þá hittumst við í Skíðaskálanum í Tungudal kl. 20 í fiskiveislu og eigum góða stund saman. Veislustjóri verður hinn frábæri Halldór Jónsson. Síðan hittumst við eldhress daginn eftir á Torfnesvelli klukkan 12.00 og byrjum að sparka í bolta aftur. Við ætlum svo öll að mæta á leik BÍ/Bolungarvíkur sem spilar á móti ÍA kl 14:00 J
Um kvöldið er svo Gala veisla sem hefst klukkan 20 í sal Frímúrara, sem er fyrir ofan Hafnarbúðina. Auk frábærar matarveislu verður verðlaunaafhending og „allskonar“. Við endum síðan kvöldið með dansleik og spilar hinn eini sanni Rúnar Pétri Geirs og hljómsveit hans.
Enn og aftur verður mótsgjald á kostnaðarverði eða aðeins 12.000 kr. fyrir knattspyrnu-púka, en innifalið í mótsgjaldi er búningur, vallargjöld og fiski-Púka-veisla. Þeir sem taka maka með í Púka veislu þurfa aðeins að borga 3.000 kr. aukalega og af sjálfsögðu er þetta fyrir utan drykki.