Diddi málari

Leiðtoginn og málarinn, Diddi á Horninu

 

Friðrik Tómas Bjarnason fæddist 5.maí 1922 í Hnífsdal, sonur hjónanna Herdísar Jóhannesdóttur og Bjarna Péturssonar.

 

Hann var fjórði elsti í í hópi þrettán systkina. Nokkurra vikna gamall fluttist hann með foreldrum sínum til Ísafjarðar þar sem hann bjó síðan ef frá er talið rúmt ár sem hann bjó á Flateyri. Það var víða þröngt í búi þegar hann ólst upp á kreppuárunum og heimili hans fór ekki varhluta af því. Hann lýsti því síðar í viðtali að lífið hefði verið erfitt á þessum árum, sérstaklega fyrir eldra fólkið. Hafragrautur, súr og soðning svo til í allar máltíðir. Kjöt var einstöku sinnum og þá helst á sunnudögum. Mjólk var erfitt að fá yfir vetrartímann og þá fengu yfirleitt eingöngu yngstu börnin að njóta hennar. Fjölskyldan bjó þröngt og um tíma bjuggu tólf manns í tveimur herbergjum. Þrátt fyrir allt fannst honum lífið dásamlegt.

Diddi á Horninu verður til

Diddi hlaut viðurnefni sitt, Diddi á Horninu, eftir húsinu sem hann bjó lengi í með foreldrum sínum, Aðalstræti 15,  sem kallað var Hornhúsið. Honum þótti ávallt vænt um þessa viðbót við nafnið sitt og sá frekar eftir því þegar málaraviðbótin varð algengari þegar fram liðu stundir. Í valdablokkum æskuáranna tilheyrði hann hópi Hornapúkanna en yfirráðasvæði þeirra náði frá Silfurtorgi og niður í Neðstakaupstað.

Eins og algengt var á þeim árum var Diddi sendur í sveit á sumrin. Frá fimm ára aldri og allt þar til hann varð sautján ára gamall fór hann öll sumur í sveit utan eitt, oftast á bænum Tannarnesi í Önundarfirði. Þegar fram liðu stundir leiddist Didda í sveitinni og þar kom að Guðrún systir hans útvegaði honum pláss á síldveiðibátnum Vestra þegar hann var sautján ára. Þá fannst honum gamanið byrja, hann ungur sveitamaðurinn kominn á síld sem þá var um allan sjó. Hann sagði bátana hafa verið fyllta á skömmum tíma og síðan hefði þurft að bíða löndunar í höfn oft dögum saman og ekkert þar að gera nema skemmta sér og hafa það huggulegt. Hann var spurður að því í viðtali síðar hvort ekki hefði verið mikið af stelpum á Siglufirði. „Jú, jú elskan mín góða. Maður þekkti þær allar en ég var alltaf svo saklaus“ sagði hann sposkur á svip og bætti því við að þetta hefðu verið dásamleg ár.  Diddi var til sjós á ýmsum skipum til ársins 1944 er hann fór að mestu í land.

Diddi málari

Eftir að hann kom í land hóf hann störf sem lærlingur hjá Kristjáni Friðbjörnssyni málara á Ísafirði, föður Ólafs Kristjánssonar  málara, tónlistarkennara og síðar bæjarstjóra í Bolungarvík. Diddi vildi meina að hæfileikar hans í teikningu hefðu ráðið því að Kristján bauð honum starf. Á stríðsárunum var nauðsynlegt að mála íslenska fánann á síður allra skipa og Didda fórst það svo vel úr hendi að Kristján vildi ekki sleppa honum heldur bauð honum námssamning sem Diddi þáði. Hann lauk sveinsprófi árið 1948. Ári síðar  þegar varð mikill samdráttur á Ísafirði hætti Diddi hjá Kristjáni og starfaði uppfrá því ávallt á eigin vegum. Marga lærlinga tók Diddi á löngum ferli sem málarameistari. Fyrsta skal nefna börnin hans Bjarndísi og Jón Björn sem bæði lærðu hjá honum. Þeir voru á annan tuginn málararnir sem hann útkrifaði á ferli sínum. Flestir ef ekki allir urðu þeir miklir vinir Didda til síðasta dags. Sá fyrsti þeirra var Björn Helgason, Hnífsdælingur, einn fremsti íþróttakappi sem Ísfirðingar hafa eignast. Bjössi sagði síðar að framgöngu sína í knattspyrnu hefði hann átt Didda að þakka því hann hefði fengið að fara allra sinna ferða og Diddi hefði gert allt til þess að sín mál gengju sem best upp.

 

Markvörðurinn

Afskipti Didda af íþróttamálum hófust sumarið sem hann varð tólf ára gamall en þá var hann heima á Ísafirði hluta úr sumri. Hann sagði Harðverja þá hafa verið sterka en hann hefði „lent í því að verða Vestrapúki“ eins og hann orðaði það vegna þess að Kjartan Ólafsson mágur hans var í þá daga formaður Vestra. Þennan part úr sumri árið 1934 lék Diddi knattspyrnu en síðan stundaði hann lítt íþróttir fyrr en árið 1944. Þá stundaði hann frjálsar íþróttir um tíma en gerðist síðan markvörður í Vestra þar sem hann stóð milli stanganna í tíu ár og segist hafa staðið sig þokkalega. Mest hafi hann fengið á sig sex mörk í leik á móti Harðverjum. Diddi hafði húmor fyrir sjálfum sér og sagði síðar í óbirtu viðtali árið 1986 við Jón Einar Haraldsson (Lamba) að Ísfirðingar hafi alltaf átt góða markverði nema kannski þegar þeir þurftu að notast við Didda á Horninu.

„Knattspyrnan hér var í mjög háum gæðaflokki, það getur maður best séð á því að 1937 fór sameinaður 3.flokkur úr Herði og Vestra í keppnisferðalag suður til Reykjavíkur og það er ekki að orðlengja það að þeir unnu öll Reykjavíkurfélögin í þessari ferð. Svo varð sameinaður 1.flokkur úr þessum félögum Íslandsmeistari 1939“ sagði Diddi í áðurnefndu viðtali.

Diddi segir náið samstarf eða sameiningu félaganna oft hafa komið til tals eftir þetta en það hafi gengið erfiðlega þar sem eðlilega hafi verið mikill rígur á milli félaganna. Leikir milli félaganna hafi verið stórviðburðir á þeim árum sem lítil samskipti voru við íþróttafélög annars staðar á landinu. Áhorfendur hafi skipst í tvo hópa og rifust og skömmuðust á meðan leikirnir stóðu yfir. „Ég var Vestrapúki en þegar ég fór í stjórn Vestra þá breyttust viðhorfin svolítið hjá mér. Ég þurfti að vinna mikið með Harðverjum og þess vegna var ef til vill ekki sami æsingur í mér og öðrum. Ég varð yfirleitt að vera hlutlaus.“

Á ÍBÍ-þingi árið 1946 lagði Diddi lagði ásamt Haraldi Steinþórssyni þáverandi formanni Vestra fram tillögu sem miðaði að sameiningu félaganna en hún náði ekki fram að ganga. Næstu ár á eftir sendu félögin nokkrum sinnum sameiginleg lið í keppnisferðalög. Má þar nefna ferð til Siglufjarðar og Akureyrar árið 1948. „Svo gerist það árið 1949 að samkomulag næst um sameiningu og var farið í keppnisferðalag til Færeyja í júlí sama ár af því tilefni. Þetta var jafnframt í fyrsta skipti sem Flugfélag Íslands flaug til Færeyja. Andinn í liðingu var mjög góður, þótt yfirleitt væri grunnt á því góða milli Harðverja og Vestramanna. Það völdust alltaf þannig menn í stjórn hjá báðum félögum að þessi rígur hvarf smám saman, en það er auðvitað deilt um það í dag hvort við höfum gert rétt í því að sameina félögin“ sagði Diddi í áðurnefndu viðtali.

„Fólk tók þessu auðvitað misjafnlega en sameiningin var fyrst og fremst í upphafi miðuð við meistaraflokk. Félögin unnu áfram með yngri flokkana hvort í sínu lagi og þar var unnið mjög vel að knattspyrnuuppeldinu. Jens Kristmannsson og Pétur Sigurðsson voru báðir kornungir menn þegar þeir tóku við stjórn í þessum félaögum og þeir unnu báðir feykigott starf.“

Eðlilega voru Harðverjar ofarlega í huga Didda þegar hann var spurður síðar að því hverjir hefðu verið hans erfiðustu andstæðingar. Fyrstan nefndi hann Jóhann Símonarson, sem hann taldi einn einn mesta keppnismann sem hann hafi kynnst og jafnframt hafi hann verið sá brögðóttasti, sérstaklega þegar dómarinn sá ekki til. Högni Þórðarson var honum líka minnisstæður.  Séra Róbert Jack, sem þjálfaði um tíma á Ísafirði, hafi kennt Högna að skjóta snúningsbolta á þann hátt að öllum markvörðum reyndist erfitt að verja frá honum. „Sá maður sem ég var alltaf hræddastur við var Högni vinur minn Þórðarson. Ég skalf alltaf þegar Högni komst frír upp vinstri kantinn og lét fara með vinstri fætinum. Hann var geypilega markheppinn“ sagði Diddi eitt sinn í blaðaviðtali.

Dómarinn og forystumaðurinn

Jafnframt því að leika knattspyrnu hóf Diddi að dæma leiki árið 1946. Hann tók sitt fyrsta dómarapróf árið 1947 og árið 1957 tók hann próf landsdómara, fyrstur Vestfirðinga. Um áratugaskeið dæmdi hann leiki í eldri og yngri flokkum. Í þá daga þurftu dómarar að sæta því að dæma mikið hjá heimaliðum, sem oftast var lítt til vinsælda fallið. Diddi taldi sig komast nokkuð vel frá málum en neitaði því ekki að stundum hefði Vestramönnum þótt á sig hallað í dómum sínum.  Aðspurður í viðtali sagði Diddi að honum hefði þótt erfiðast að dæma á tvo menn. Annars vegar Ellert Schram og hins vegar Björn Helgason lærling sinn. Báðir hafi þeir verið miklir keppnismenn og því oft orðið árekstrar á milli þeirra. Eftir að Diddi lét af störfum sem dómari sinnti hann um árabil störfum sem eftirlitsdómari KSÍ.

Heimsóknir knappspyrnuliða til Ísafjarðar urðu með tímanum algengari. Í minningapunktum sem Diddi ritaði segir hann að fyrsta heimsókn til Vestra hafi verið er meistaraflokkur Fram kom árið 1937 vestur. Siglufjörður hafi verið sérstakur vinabær Ísafjarðar í íþróttum frá árinu 1946 og íþróttamenn bæjanna hafi skipst á heimsóknum. Á árunum 1947-1960 hafi allir Íslandsmeistarar í knattspyrnu sótt Ísafjörð heim og sumir þeirra oftar en einu sinni en oftast hafi lið KR komið í heimsókn. Fjöldi annarra liða hafi og lagt leið sína til Ísafjarðar að ógleymdum liðum HB og B36 frá Færeyjum, sem komu árin 1954 og 1964.  Í þessum heimsóknum hafi tekist kynni og vinátta milli manna sem varað hafi lífið á enda í mörgum tilfellum. Má þar nefna vináttu Didda og þeirra Felixsona úr KR þeirra Bjarna, Harðar og Gunnars. Taldi Diddi sig ávallt til KR-inga og sagði í viðtali við BB árið 1991 að hann yrði KR-ingur þar til yfir lyki.

Þegar dró að stofnun Knattspyrnuráðs Ísafjarðar árið 1961 var mönnum ljóst að til þess að stofnun þess tækist  yrði formaður þess að njóta óskoraðs trausts bæði Vestramanna og Harðverja. Harðverjinn Albert Karl Sanders kom að máli við Didda og bað hann að gefa ekki framar kost á sér í stjórn ÍBÍ því hann teldi að hægt yrði að stofna KRÍ með Didda sem formann. Það gekk eftir og stýrði Diddi starfi ráðsins um árabil á meðan það var að festast í sessi.

 

 

Sissa og fjölskyldan

Það var án efa stærsta happ Didda í lífinu þegar hann kynntist árið 1943 Finnborgu Salóme Jónsdóttur, Sissu, sem fæddist í  Súgandafirði 15. september 1924. Hún var dóttir Jóns Sveinbjarnar Steinþórssonar og Helgu Soffíu Kristjánsdóttur. Sissa ólst upp í Súgandafirði og síðar Önundarfirði. Sissa og Diddi gengu í hjónaband 27.september 1947 og var brúðkaupsveislan haldin á heimili Guðrúnar Þorbjargar systur Didda. Guðrún Þorbjörg sagði frá því síðar að mikil gleði hefði verið í veislunni, „íhald, kratar og kommar (framsókn, hvað var nú það?), goodtemplarar, stórtemplarar og ekki templarar – allir glöddust saman og þar steig Marsellíus Bernharðsson sín fyrstu dansspor – beint áfram eða aftur á bak – en aldrei út hlið, trúr sínum lífsstíl“ sagði Guðrún.

Þau hjón bjuggu lengst af síns hjúskapar að Hlíðarvegi 5. Þau eignuðust sex börn: Jón Björn, Helgu Maríu, Bjarndísi, Guðmund Atla, Steinþór og Helga Mar. Helgu Maríu misstu þau af slysförum aðeins 10 ára gamla árið 1961. Guðmundur Atli lést af veikindum tæplega þrítugur árið 1986. Auk barnanna bjó Jóhannes föðurbróðir Sissu á heimili þeirra á þriðja áratug.

 

 

Svo miklum félagsstörfum sem Diddi sinnti samhliða vinnu getur enginn án aðstoðar sinna nánustu. Í Sissu áttu  íþróttamenn sannarlega Hauk í horni og bar heimilishaldið því glöggt vitni. Pétur Sigurðsson sagði síðar að á þeim hjónum hefði sannast að þar sem nægt hjartarými væri, þar væri líka nægt húsrými. „Þekkt er setningin sem varð oft lokaafgreiðsla á því þegar íþróttamönnum og fararstjórum var ráðstafað í mat og jafnvel gistingu á heimilum –og restin fer til Sissu og Didda-. Þar var alltaf til staðar gleði gestgjafanna sem þeim var báðum svo einlæg og eðlileg. Heimili þeirra var því lengst af eins konar félagsmiðstöð ísfirskra íþróttamanna“ sagði Pétur.

En það voru fleiri en íþróttamenn, sem nutu gestrisni þeirra hjóna, það gerðu einnig aðrir vinir þeirra og ættingjar. Guðrún Þorbjörg lýsti því síðar þannig: „Ekkert heimili þekki ég sem eins hefur staðið um –þjóðbraut þvert- og heimili þeirra Sissu og bróður míns, alveg sama hver í hlut átti, skyldfólk, vinir, kunningjar, eða heil knattspyrnulið og það er líka eina heimilið sem ég hefi kynnst þar sem lykillinn stendur alltaf í skránni utanvert, þótt enginn sé heim, enda aldrei spurt hvenær við kæmum eða með hve marga með okkur – gerið þið bara svo vel“. Konráð bróðursonur Didda lýsti þessari gestrisni þannig:„Eins þegar við systkinin vorum mætt á flugvöllinn heima og starfsmaður þar bar okkur þau skilaboð að hann Diddi hefði orðið að þjóta en Land Roverinn  stæði fyrir utan og að undir bílstjórasætinu væru peningar fyrir bensíni. Svona var Diddi frændi minn, vinátta hans og kærleikur var ríkidæmi hverjum þeim sem öðlaðist hana og þeir voru margir því maðurinn hafði óendanlega stórt hjarta.“

Veiðimennirnir 

Sissa starfaði um árabil í Íshúsfélagi Ísfirðinga samhliða heimilisstörfum. Þó drjúgur tími færi í brauðstritið og starfið að íþróttamálum áttu þau hjónin sér sameiginlegt áhugamál í stangveiðinni og voru þau bæði liðtækir veiðimenn. Fyrstu árin fóru þau til veiða í Vöðunum í Önundarfirði sem Diddi var lengi með á leigu ásamt nokkrum vinum sínum. Til veiða í Ísafjarðardjúpi fór hann fyrst til veiða með Jónasi Magnússyni kaupmanni á Ísafirði árið 1960 sem kenndi Didda margt um veiðiskap. Diddi sagði Jónas hafa verið strangan kennara. „Maður mátti ekki kveikja sér í sígarettu, ekki kveikja sér í pípu né fá sér í glas. Laxinn finnur lykt af öllu sagði Jónas og ég held að hann hafi meint það“ sagði Diddi síðar.

Diddi kunni að segja veiðisögur. „Eitt sinn í byrjun september voru við að veiða í Langadalsá. Það var ósköp treg veiði á þessum tíma og ég var búinn að þræða alla ána án árangurs. Þegar ég kem upp í Kirkjubólsfjótið er ég orðinn þreyttur og ákveð að hvíla mig á flötum stein sem er efst við fljótið við kvörn sem þar er. Ég sest niður og fæ mér sjúss og kasta út línunni. Ég er varla búinn að kasta og línan er enn í loftinu þegar tveir kollegnir laxar taka á rás  og stökkva upp á móti línunni. Sá stærri var svo þungur að hann datt strax niður en sá minni sem var 7 pund náði maðkinum á lofti og kokgleypti hann, rétt eins og hvolpur stekkur á sykurmola. Og viti menn ég varð alveg dauðhræddur enda hafði ég aldrei séð svona áður en mér tókst þó að landa fiskinum. En verst er að það vill enginn trúa mér“ sagði Diddi í viðtalið við BB á sínum tíma.

Af fleiri félagsstörfum Didda má nefna að hann  var meðal stofnfélaga Lionsklúbbs Ísafjarðar og starfaði í honum um áratuga skeið.

Diddi hafði ástríðu fyrir fótbolta alla tíð. Sá áhugi endurspeglaðist best í áhuga hans fyrir ensku knattspyrnunni í sjónvarpinu. Hann sleppti aldrei leik á laugardögum í þá daga. „Ef ég mögulega get þá sleppi ég ekki leik. Það getur ekkert truflað mig nema að ég þurfi að fara í jarðarfarir eða eitthvað álíka“ sagði hann eitt sinn við blaðamann. Hann fylgdi Arsenal að málum eins og Bjarni vinur hans Felixson.

Lífið er ekki ávallt dans á rósum

Líf Didda var ekki alltaf dans á rósum. Að missa tvö barna sinna er án efa raun sem aðeins sterkustu manneskjur standast og eiginkonu sína Sissu missti hann eftir erfið veikindi hennar árið 1983. Sjálfur glímdi hann stóran hluta æfinnar við veikindi. Hann fékk hjartaáfall aðeins 39 ára gamall og gekk ekki heill til skógar eftir það. Síðustu árin glímdi hann við mikil veikindi og voru þau honum mikil raun. En þrátt fyrir allt var hann þakklátur og tók örlögum sínum af miklu æðruleysi. „Ég er mjög sáttur við lífið því þetta er gangurinn. En ég vil taka fram að ég hefði átt miklu erfiðara með að komast í gegnum allt saman hefði ég ekki átt svona góð börn og góða vini. Það hafa allri verið tilbúnir til að hjálpa mér og fyrir það er ég þakklátur“ sagði Diddi í viðtali við BB árið 1991. Hann lést 16.október 1997.

Að leggja allt í sölurnar

Didda hlotnuðust að vonum fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín fyrir íþróttahreyfinguna í gegnum árin og má þar nefna að árið 1985 útnefndu knattspyrnumenn hann guðföður knattspyrnunnar á Ísafirði.

Ég held að Diddi hafi verið göldróttur. Eitt sinn sátum við á Reykjavíkurflugvelli að morgni dags og biðum eftir flugi eftir sigurleik ÍBÍ kvöldið áður. Það lá að vonum vel á kappanum, sigurvíma í salnum og blíðuveður. Hann rifjaði upp gamla daga og sagði okkur ungu mennina heppna með þær góðu samgöngur sem nú væru til staðar. Við kæmumst allra okkar ferða en áður hefðu ferðalögin tekið marga daga og stundum vikur. Ég ákvað að stríða honum aðeins og hafði á orði að hann væri nú stundum ýkinn. „Halli minn. (Frá fyrstu tíð kallaði hann mig af einhverjum ástæðum aldrei annað en Halla. Sá eini sem það gerði. Mér datt ekki einu sinni til hugar að spyrja.) Ég þarf nú ekki að ýkja í því máli elskan mín“ sagði hann sposkur. Andartaki síðar var kallað upp í hátalarakerfinu á veður hefði skyndilega breyst á Ísafirði og flug yrði næst athugað klukkan tvö. Þá hló Diddi dátt.

 

Sú saga var sögð að einhver, sem ekki skyldi þankagang og uppbyggingu íþróttahreyfingarinnar,  hefði fundið að því við Didda hversu miklum tíma, fyrirhöfn og oft fjármunum hann verði í knattspyrnuna. „Hvað munar mig um að reyna að redda félögunum, strákunum, sem vilja standa sig og verja heiður okkar Ísfirðinganna“.

Það eru menn eins og Diddi á Horninu sem lögðu grunninn að þeirri fjöldahreyfingu sem íþróttahreyfingin og þá sérstaklega knattspyrnuhreyfingin er  í dag. Menn sem ávallt voru reiðubúnir til starfa, hvenær sem kallað var. Lögðu í starfið allt sitt og sinna um áratugaskeið og óskuðu einskis í staðinn.

-Halldór Jónsson-

Grein þessi er byggð á viðtölum sem birtust við Didda í blöðum vestra. Einnig á óbirtu viðtali sem Lambi tók við hann og Jens Kristmannsson bjargaði frá glötun. Einnig öðrum upplýsingum frá vinum og samstarfsmönnum Didda lífs og liðnum. Greinin er langt frá því að standast sagnfræðilegar kröfur og fyrirfram er beðist velvirðingar á rangfærslum sem kunna að finnast í greininni.