Elsti atvinnumaður heims

Elsti atvinnumaður heims?

 

Pétur Sigurðsson, fyrrum forseti Alþýðusambands Vestfjarða og einn af áköfustu knattspyrnumönnum á Stóra púkamótinu sem haldið er árlega á Ísafirði, undirritaði „atvinnumannasamning“ í hófi sem haldið var á vegum mótshaldara á föstudagskvöld. Pétur sem er kominn hátt á áttræðisaldur, skuldbindur sig samkvæmt samningnum að spila á mótinu þar til hann verður áttræður árið 2011. Pétur, sem leikið hefur í marki, hefur slegið í gegn á mótinu síðustu ár og oftast sýnt liprari takta en menn sem erum langtum yngri. Samkvæmt samningnum er Pétri skylt að æfa samviskusamlega fyrir hvert mót.

 

 

Í samningnum kemur fram að auk þess að taka þátt í mótunum sé honum óheimilt að taka þátt í öðrum íþróttagreinum, en hyggist hann gera samning við erlend knattspyrnulið skuli það gert í samráði við Púkafélagið. Samkvæmt samningnum er Púkamótinu skylt að halda Stóra Púkamótið á hverju ári á meðan samningurinn er í gildi.


„Loksins er maður kominn í atvinnumennskuna“, sagði Pétur ánægður með samninginn. „Verðið verður samt ekki gefið upp, það mun bara koma fram í skattaskýrslunni.“ Pétur segir að hugmyndin hafi komið til vegna þess að meðalaldur þátttakenda á Stóra Púkamótinu hafi farið lækkandi síðustu ár og sífellt yngri, stæltari og liprari leikmenn mæta til leiks á hverju ári. Púkafélagið hafi því gripið til þess ráðs að samningsbinda Pétur til að sjá til þess að meðalaldurinn myndi haldast uppi að minnsta kosti næstu tvö árin.

„Þetta var gert til að tryggja að meðalaldurinn hrapi ekki, en ef ég myndi hætta myndi hann lækka töluvert“, segir Pétur. Hann ætlar að fara eftir ákvæðum samningsins og æfa samviskusamlega fyrir mótið þannig að hann verður í toppformi að ári liðnu þegar næsta mót byrjar. „Ég hef æft síðustu ár með því að ganga 11 kílómetra annan hvern dag og ég ætla auðvitað að halda því áfram. Þetta er þó allt gert í gríni. Maður verður að hafa fyrirvara á svona skuldbindingum enda er það Guð sem ræður því sem gerist“, segir Pétur.