Högni Þórðarson

Högni Þórðarson bankamaður, íþróttafrömuður og bæjarfulltrúi lítur yfir farinn veg:

Úr negldum rimaskóm á reitunum yfir í pólitík og bankamál og loksins í „Skypið“ með krökkunum.

Hann man tímana tvenna; íþróttafrömuðurinn, bankamaðurinn og bæjarfulltrúinn frá Ísafirði, Högni Þórðarson. Meðal hans fyrstu minninga úr boltanum eru kappleikir strákanna á Eyrinni á velli við saltfiskreitina á Riis-túninu neðan við gamla barnaskólahúsið á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar. Þægindi voru þá metin með öðrum hætti þegar rafmagn og sími voru varla á hverju heimili og lengri ferðalög voru nær einungis stunduð á bátum og skipum. Síðustu árin hefur Högni hins vegar deilt tíma sínum á milli Spánar og Íslands og gætir þess að hafa ferðatölvuna með svo hann geti spjallað við afkomendurna á Skypinu.

Högni Þórðarson er fæddur í húsi afa síns Magnúsar prentara í Sólgötu 1 hinn 6. febrúar 1924 og er því orðinn 87 ára. Hann er elstur barna Þórðar Jóhannssonar úrsmiðs og Kristínar Magnúsdóttur konu hans. Högni gerði bankamál að sínu ævistarfi (45 ár), en hann hóf störf í Útvegsbankanum árið 1945 og var þar lengi útibússtjóri. Fljótlega varð hann einnig bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn, þá fyrst í minnihluta, en síðustu árin kusu sjálfstæðismenn og reyndar fulltrúar úr öllum flokkum hann til æðstu metorða í bæjarpólitíkinni, er hann varð forseti bæjarstjórnar 1971. Þótt hann kynni orðið ýmislegt fyrir sér í hinni pólitísku bardagalist ætlaði hann sér engan frekari frama á þeim vettvangi. Það voru þó yfirstjórnendur Útvegsbankans á landsvísu sem sáu til þess að hann hætti nokkrum árum fyrr en hann ætlaði sér þegar þeir kröfðust þess að hann hætti í pólitík ef hann ætlaði sér að verða áfram útibússtjóri. Högni sættist á það.

Úr Vestra í Hörð

Framan af voru það þó íþróttirnar sem áttu hug hans allan. Högni var í stjórn Harðar í 9 ár og formaður félagsins frá 1948 til 1950, en þó byrjaði hann í Vestra. „Það var vegna þess að móðurbræður mínir, Jónas Magnússon kaupmaður og Halldór prentari voru báðir í Vestra. Þeir voru miklir íþróttamenn, og sérstaklega góðir afreksmenn í fimleikum. En reyndar var lítið um yngri flokka starf í Herði og Vestra á fyrstu áratugum í starfi félaganna þannig að við strákarnir stofnuðum okkar púkafélög og þar hófst mín knattspyrnuiðkun.“

Fjögur púkafélög af þessu tagi voru starfandi á Ísafirði þegar Högni var að alast upp. Hlíðarvegspúkar voru með eitt félag, Krókspúkar voru með annað, en þeirra heimavöllur var aðalkeppnisvöllur bæjarins við Grund, ofan við Íshúsfélagið, en sá völlur gekk undir nafninu Hrossataðsvöllur. Neðar á Eyrinni voru tvö önnur félög. Það var Njörður sem var aðallega skipað strákum sem bjuggu fyrir neðan Aðalstrætið. Í þeim hópi var Matthías Bjarnason síðar ráðherra, sem reyndist þó strax liðtækari í pólitíkinni en boltanum. Aðrir í Nirði voru strákarnir í Björnsbúð, þeir Garðar og Aðalbjörn Guðmundssynir, Matthías Jónsson síðar smiður, Guðmundur Sigurðsson (kallaður Gvendur kýlir vegna þrumusparka sinna), Garðar Einarsson (kvæntur Jóhönnu systur Gvendar kýlis og faðir Bjarna Garðars).

„Ég var hins vegar í fjórða félaginu“, segir Högni, „sem við kölluðum Knattspyrnufélag Ísafjarðar (KÍ). Með mér voru vinur minn Gunnlaugur Ó. Guðmundsson, síðar póstmaður og mikill krati, synir Finnbjörns málara, Óskar Aðalsteinn (bróðir Láka kokks sem margir muna eftir) en hann var oft í markinu, Ásgeir Einarsson og Finnbjörn Þorvaldsson á Felli og svo Hörður Helgason, síðar sendiherra, svo nokkrir séu nefndir. Við útbjuggum sjálfir völl á hluta reitanna neðan við Barnaskólann, komum fyrir mörkum og merktum línur með salti eins og þá tíðkaðist.“

Félagsaðstaða í kjallarherberginu

Á barnsárunum voru menn ekkert að fara svo mikið á milli bæjarhluta og því voru fyrstu leikir Högna með KÍ gegn Nirði. Það var líka talsvert félagslíf hjá strákunum í kringum þetta og þá skipti máli að hafa góða aðstöðu. Högni bjó að því að Þórður úrsmiður faðir hans hafði ásamt Jónasi Tómassyni tónskáldi, Elíasi Kærnested skósmið, Matthíasi Sveinssyni kaupmanni og Einari og Kristjáni klæðskerum og fleirum tekið þátt í að byggja húsalengjuna við Silfurtorgið og upp með Hafnarstræti sem átti eftir að verða eitt af helstu kennileitum Ísafjarðarbæjar. Högni segist ekkert skilja í því hvernig þessir karlar hafi farið að þessu á árunum 1928 og 1929 að koma þessu upp. Einhver bankalán fengust sjálfsagt. Í hverri einingu voru tvær meginhæðir, kjallari og ris. Högni var svo heppinn að fá eitt kjallaraherbergi til afnota fyrir ýmsa félagsstarfsemi í tengslum við fótboltann.

„Þarna gátum við komið saman og þegar okkur vantaði pening fyrir bolta eða öðrum búnaði héldum við þarna hlutaveltur og var miðinn minnir mig seldur á 2 aura stykkið. Svo sýndum við kvikmyndir, en Hörður Helgason átti handknúna kvikmyndasýningarvél og þrjár myndir, líklega eina Chaplin mynd og tvær með Harold Loyd. Þetta sýndum við aftur og aftur og náðum inn nokkrum krónum.“

Liðsaðstaðan virtist þannig vera best hjá púkafélagi Högna, ef frá var talinn Hrossataðsvöllurinn sem Krókspúkar höfðu. Stíllinn á Knattspyrnufélagi Ísafjarðar náði þó hæstum hæðum þegar það keypti keppnisbúninga frá Reykjavík fyrir talsvert fé, en eiginlega fyrir misskilning, segir Höfni, enda voru þetta KR-búningar.

Keyptu keppnistreyjur nánast óvart

„Þannig var mál með vexti að það var strákur þarna á sumrin, Martin Pedersen. Einhverju sinni þegar hann fór suður hef ég orð á því við hann hvort hann geti ekki kannað hvort hægt sé að kaupa keppnisbúninga í höfuðborginni. Stuttu síðar kemur pabbi til mín með póstkröfu sem stíluð hafði verið á mig og spyr hvað það sé. Það hafði ég ekki hugmynd um, en þegar málið er kannaði kemur í ljós að þetta eru keppnisbúningar. Nú voru góð ráð dýr því krafan var líklega upp á 2-300 krónur sem var talsvert mikið fé á þeim tíma. Við áttum einhverja aura í sjóði og pabbi spurði hvort við gætum ekki haldið áfram að safna. Það varð svo úr að pabbi leysti út pakkann en við héldum áfram að safna fé á tombólum og með kvikmyndasýningum.“

Þarna bjargaði úrsmiðurinn heiðri sonarins sem var í staðinn duglegur að safna upp í skuldina með félögum sínum. Þórður hefur kunnað að meta þessa framtakssemi, en líklega var honum ekki mikil alvara í að innheimta alla skuldina því hann brosti í kampinn þegar strákarnir færðu honum aurana fyrst á eftir og sjálfsagt var skuldin aldrei að fullu greidd. En búningarnir dugðu vel. Í fyrstu leikjunum á eftir var hálfur sigur unninn því andstæðingar báru svo mikla virðingu fyrir liði í svona flottum búningi.

Rúðuskuldin aldrei greidd

Það var líka önnur skuld sem púkarnir stofnuðu til sem aldrei var greidd. Þannig var mál með vexti að neðribæjarliðin Njörður og KÍ háðu marga keppni en lögðu stundum ekki í Krókspúkana sem þóttu heldur fremri í knattspyrnunni á þessum árum. Einhverjum datt þá það ráð í hug sem oft hefur komið upp síðan, þ.e. að sameina félögin, sem sagt Njörð og KÍ. Þá var það pólitískur refskapur Matta Bjarna sem úrslitum réði og kom í veg fyrir áformin.

„Við boðuðum til fundar KÍ-púka og Njarðarpúka í kjallaraherbergi mínu. En þá varð fjandinn laus. Fundurinn var svo hávaðasamur að við vorum reknir út. Þegar við ætluðum að halda fundinum áfram í portinu á bak við húsið var rúða brotin og fundurinn leystist upp svo ekkert varð úr sameiningunni.“

Þarna var það Njarðarpúkinn Matthías Bjarnason, síðar ráðherra, sem sá til þess með vafasömum pólitískum meðulum að ekki tókst að afgreiða sameiningartillöguna, eins og Matthías segir sjálfur frá í bókinni Járnkarlinn eftir Örnólf Árnason þar sem hann ræðir um ævi sína og viðhorf (bls. 19 – 21).

Þar segir Matthías að oft hafi verið væringar með mönnum og komið til harðra átaka, enda hafi knattspyrnan hvorki þá né síðar orðið til að milda hugi manna. Sjálfsagt var Matthías þá með í huga að oft vantaði dómara á leiki og var því oft rifist um atvik á vellinum eins og gengur. Í bókinni segir Matti frá því að í KÍ hafi verið voðalega fínir strákar sem hafi meira að segja átt búninga. Þegar kom að því að neðribæjarpúkarnir hafi viljað sameina þessi tvö félög í eitt hafi honum, Njarðarpúkanum, orðið um og ó, því hann vildi alls enga sameiningu. Boðað var til fundar um málið í kjallaranum hjá Þórði úrsmið og vissi Matti að leyfi fyrir fundinum hafði verið veitt gegn því skilyrði að fundarmenn hefðu ekki mjög hátt. Matthías segist hafa verið í öngum sínum því hann vissi að hann hafði aðeins sex stuðningsmenn með sér gegn tillögunni. Með honum í liði var Kristmundur Gíslason, síðar bifreiðastjóri, sem var sagður mjög raddsterkur í þá daga. Þegar kom að því að bera upp tillöguna hnippti Matti í Kristmund og sagði að þeir skyldu æpa sem mest þeir mættu. Það stóð þá ekki á Þórði að koma niður í kjallarann og hann skipaði þeim að fara út og skammast sín fyrir að brjóta loforðið um að vera eins og menn. Flutningsmenn tillögunnar voru þó ekki af baki dottnir og vildu halda fundinum áfram í portinu á bak við húsið. Þegar kom að því að bera tillöguna upp í annað sinn segir Matthías að það hafi farið að sjóða á honum. Hann hnippti þá aftur í Kristmund og sagði honum að taka upp stein og láta vaða í rúðuna í kjallaranum hjá Þórði. Þá kom úrsmiðurinn hlaupandi út ásamt klæðskerunum Einari og Kristjáni og ráku þeir strákaskarann burt. Ekki var gerð önnur tilraun til sameiningar þessara púkafélaga, en síðar þegar Högni minnti Kristmund reglulega á það í gamni að hann ætti eftir að borga rúðuna, með vöxtum og vaxtavöxtum náttúrulega, benti Kristmundur alltaf réttilega á Matta sem réttmætan greiðanda þeirrar skuldar. Matthías segir svo í bók sinni frá árinu 1992, um sextíu árum síðar, að líklega verði skuldin aldrei greidd úr þessu!

Þetta voru líklega fyrstu kynni Högna af stjórnmálamanninum Matthíasi Bjarnasyni, en síðar áttu þeir eftir að starfa náið saman í bæjarpólitíkinni. Hann vill nú ekki viðurkenna að þetta atvik úr æsku hafi verið dæmigert fyrir Matta Bjarna. „Matthías tók sér ýmislegt fyrir hendur. Hann var mjög vel máli farinn og mikið foringjaefni.“

„Við Gulli hentum grjóti á nasistafundinn“

Reyndar var pólitíkin öðruvísi á millistríðsárunum. Hart var tekist á og nasistar reyndu að hasla sér völl. Högni man eftir því þegar tveir nasistaforingjar að sunnan komu vestur með boðskap sinn til að safna liði.

„Annar þeirra hét Gísli og var kallaður Gitler. Þetta var árið 1934 (Högni var þá 10 ára). Nasistaforingjarnir héldu til á Hernum og voru að gefa krökkum gosdrykkinn sítron sem menn sáu annars ekki nema á stórhátíðum eða við önnur sérstök tækifæri. Við Gulli æskuvinur minn (Gunnlaugur Guðmundsson á pósthúsinu) fréttum af þessu og okkur langaði eðlilega í sítron-drykkinn svo við örkuðum upp að Herkastalanum. En þegar þangað kom voru allir sítron-drykkir búnir. Þess vegna neituðum við Gulli að ganga í flokkinn, en margir púkar sem höfðu fengið sítron-drykk létu skrá sig og fengu einhver merki eða borða. Síðan boðuðu nasistaleiðtogarnir til fundar uppi í Stóru Urð. Við Gulli og aðrir sem ekki gengu í flokkinn læddumst upp á hrygginn yfir urðinni og fylgdumst með. Þegar nasistarnir fóru síðan að halda einhverjar ræður byrjuðu nokkrir úr okkar hópir að kasta grjóti í átt að nasistasamkomunni. Þá köstuðu einhverjir þaðan grjóti á móti og þetta endaði þá með allsherjargrjótkasti og fundurinn leystist upp. Margir af strákunum sem þarna voru með nasistunum fóru síðan í pólitík, en mér hefur aldrei dottið í hug að kalla þá nasista. Það má hins vegar segja að ég hafi ekki gengið í lið með nasistunum af því að þeir voru búnir með sítrónið! Það var mikill ljómi yfir Þýskalandi á þessum árum og það kom ekki í ljós fyrr en miklu síðar hvers konar grimmdarverk nasistarnir unnu.“

En aftur að boltanum. Sameining Njarðar og KÍ rann út í sandinn. Félagar Högna í KÍ fengu eftir þetta þá hugdettu að halda starfseminni áfram upp í fullorðinsflokk í stað þess að ganga í Hörð eða Vestra. Af því varð þó ekki. Strákarnir léku sína fótboltaleiki á reitunum á sumrin, að jafnaði í sjö manna liðum. Á vetrum fóru menn á skíði og skauta, og stunduðu líka jakahlaup á pollinum þegar færi gafst, jafnvel í frímínútum og komu strákarnir þá oft sjóblautir í kennslustund. Þjálfurum var lítt til að dreifa fyrir krakkana, en á þessum árum stofnaði Hörður fyrst til 3ja flokks karla og síðan Vestri. Og Högni spilaði fyrsta leikinn með Vestra gegn Herði árið 1936, þá nokkru yngri en aðrir og man það helst frá þeim leik að þá lærði hann rangstöðuregluna af mistökum sínum. Þá var Harðarliðið skipað fræknum köppum sem höfðu meira að segja farið suður til Reykjavíkur og lagt KR og Val að velli. Harðverjarnir unnu þá Vestra stórt. En síðar lá leið Högna yfir í Hörð.

„Jónas frændi sagði að Harðverjar hefðu lokkað mig yfir með snúð“

„Æfingar hjá Vestra voru fremur stopular á þessum tíma. Nokkrir skiptu með sér að stjórna æfingum en oft gleymdu einhverjir þjálfaranna að mæta eða komust ekki. Hins vegar var aðalþjálfarinn hjá Herði mikill áhugamaður, Halldór Sigurgeirsson. Sjálfur var hann asmasjúklingur, en hann hafði ódrepandi áhuga á fótboltanum, las ensk blöð og kenndi okkur strákunum að sparka boltanum almennilega, að drepa knöttinn og fór yfir knattspyrnureglurnar. Svo kom hann skipulagi á leikinn, þannig að hver maður spilaði sína stöðu í stað þess að allur hópurinn væri hlaupandi á eftir boltanum í einni þvögu. Frændur mínir voru náttúrulega ekki hressir með þessi sinnaskipti mín og Jónas Magg sagði að ég hefði látið Helga bakara kaupa mig yfir fyrir snúð! Ég man þó ekki eftir snúðnum heldur hinu að ég vildi fá almennilegar æfingar.“

Upp úr þessu fór Högni að keppa með Herði. Að jafnaði voru tvær aðalkeppnir á hverju sumri á milli félaganna Harðar og Vestra, og stundum annarra félaga á Vestfjörðum. Það var á þjóðhátíðardaginn, 17. júní, og svo fór Vestfjarðamótið fram í ágúst. Svo fóru sameinuð lið Harðar og Vestra í keppnisferðir suður eða norður í land og skiptust þá gjarnan á að leika í búningum félaganna.

Leikið við breska hermenn

Á stríðsárunum var algengt að leikið væri við sjóliða af herskipum. „Um þetta leiti var á Ísafirði breskur hermaður sem hét Lesley, en hann hafði meðal annars leikið með Queens Park Rangers í Englandi. Hann tók þátt í öllum æfingum með okkur. Svo kom breskt skip í höfn og vildu sjóliðarnir keppa við okkur. Bretana vantaði reyndar einn mann, þótt Lesley spilaði með þeim, og var ég fenginn í lið gestanna. Nokkrum áhorfendum mislíkaði það reyndar og kölluðu til mín að ég mætti ekki skora. Leysley stóð sig feykivel en Ísfirðingarnir höfðu þó betur.“

Stríðsárin voru svo mikill uppgangstími í atvinnulífinu að oft var lítill tími til knattspyrnuiðkunar. Bretar sendu stór fisktökuskip til Ísafjarðar á þeim árum og ungir menn unnu oft myrkranna á milli við að skipa út fiski. Peningaleysi hafði líka plagað margan Íslendinginn og því tóku ungir menn vinnunni fegins hendi. Hinir áhugasömustu létu þetta þó ekki aftra sér. Þannig var það eitt sinn þegar Högni var búinn að vinna heilan sólarhring í fisktökuskipi að Karl Bjarnason (bróðir Matthíasar) sem var um tíma formaður Harðar kemur til Högna og segir honum að koma að keppa síðar um daginn. Högni svaraði honum að hann hefði nú varla aldur í þann leik, auk þess sem hann væri búinn að vinna í heilan sólarhring. „En Karl sagði mér að mæta samt, svo ég fékk mér kríu og mætti í leikinn og tókst meira að segja að skora eitt mark gegn einhverju Reykjavíkurfélaganna. Þá sagði Kalli: Ég vissi að helvítis strákurinn gæti þetta þótt hann væri búinn að vinna í sólarhring þegar ég sótti hann!“

Engin pólitík í Herði og Vestra

Högni segir að það hafi verið pólitík af tvennum og óskyldum toga á Ísafirði á þessum árum. Annað hvort hafi menn verið íhald eða kratar. Svo hafi menn annað hvort verið í Herði eða Vestra. Skiptingin í Hörð og Vestra fór ekkert eftir hverfum eða flokkspólitík,heldur fyrst og fremst eftir kunningsskap. Kratarnir höfðu yfirhöndina í bæjarpólitíkinni á þessum árum en Harðverjar og Vestrapúkar skiptist á sigrum og ósigrum. Þannig skiptust liðin á að vinna svokallaðan Leósbikar, sem gefinn var af Leós-bræðrum, en stærsti sigur Harðar var líklega árið 1948 þegar liðið vann Vestra 7:1. Högni segir frá því að Vestri hafi reyndar verið talið betra lið þá með menn eins og Guðmund Sigurðsson (Gvend Lóu) í markinu. „En okkur var uppálagt að skora strax og slá þá út af laginu. Og það gerðum við. Vestraliðið brotnaði hreinlega saman og við burstuðum þá.“

Sameinuð lið Harðar og Vestra gerðu svo víðreist á þessum árum. Fyrir utan að fara suður og norður og keppa við Siglfirðinga, Akureyringa og Reykjavíkurliðin þá var efnt til frækilegrar ferðar til Færeyja árið 1949. „Við fórum með Catalinaflugbát, millilentum á Reyðarfirði til að taka eldsneyti og lentum svo á pollinum við Þórshöfn þar sem mikill mannfjöldi tók á móti okkur, enda höfðu þeir víst ekki séð flugvél frá lokum stríðsins. Við kepptum í frjálsum íþróttum og svo fjóra leiki við Færeyingana. Við unnum tvo og töpuðum tveimur. Síðasti leikurinn var við úrvalslið Færeyinga og var keppt um gríðarstóran bikar. Um kvöldið var svo boðið til veislu í Sjónleikahúsið. Þangað var okkur boðið ásamt öllum helstu framámönnum í Færeyjum. Þegar leið á kvöldið fylltu þeir bikarinn stóra af Ákavíti og létu hann ganga meðal fyrirmenna í salnum og okkar til að menn gætu dreypt á . Samt voru menn líka með staup sem fyllt voru reglulega. Aðrir fengu bara kaffi. Þetta þótti okkur nýlunda, en í lokin var svo stiginn færeyskur hringdans af miklum móð. Færeyingarnir komu svo í heimsókn til okkar síðar. Við tókum vel á móti þeim, en þeir fengu þó ekkert brennivín.“

Úr boltanum í bæjarstjórnina

Sjálfur var Högni að keppa í knattspyrnu til 1952 en þá ristarbrotnaði hann á æfingu í leikfimisalnum. Brotið greri illa og háði honum í leik svo hann hætti keppni upp frá því, 28 ára gamall. En þá var sjálfsagt vinnan og fjölskyldan farin að krefjast meiri tíma, enda hafði frumburðurinn, Hörður, fæðst þeim hjónum Högna og Kristrúnu Guðmundsdóttur.

Högni minnist margra úr knattspyrnu- og íþróttaiðkuninni frá uppvaxtarárunum á Ísafirði. Kunnugleg nöfn eru nefnd. Sem fyrr stendur nafn eins leikmanns upp úr sakir leikni og getu. „Halldór Sveinbjarnarson (fæddur 1919) var einstaklega góður leikmaður. Hann átti náttúrulega heima í landsliði. Hann var mjög teknískur og hafði gott auga fyrir knattspyrnunni. Ísfirðingar áttu marga fleiri góða knattspyrnumenn á þessum árum. Úr Herði má telja þá Guðmund L.Þ. Guðmundsson, Hauk og Guðmund Benediktssyni, Níels Guðmundsson málara, Svein Elíasson og Mugg á Grænagarði. Úr Vestra má telja Magga Guðjónsson, Benna á Pólnum og Friðrik Vilhjálmsson.“

Í samtali okkar Högna ber margt fleira á góma. Hann lýsir breytingum á aðstöðu allt frá því er strákarnir hlupu á eftir tuðrunni á reitunum með reimaðan bolta í skóm með rimum undir sólanum sem losnuðu svo að naglar stungust upp í ilina. Þá var maður sem kallaður var Elí pung, mikill Harðverji, sem var með verkfæri á hliðarlínunni til að laga skóna svo strákarnir gætu haldið áfram keppni. Elí þessi seldi fisk í fiskbúð föður síns, en veitti Harðarpúkum sérstök kjör þegar þeir keyptu í soðið. (Viðkvæði Elís var: „3 krónur, fljótir, pabbi er að koma.“) Högni minnist líka þjálfarans Axels Andréssonar sem kom vestur og þjálfaði um tíma og notaði ýmsar nýstárlegar kerfisbundnar aðferðir. Ein var sú að láta leikmenn hlaupa í kapp eftir æfingar – og þá hlupu þeir mismunandi vegalengd eftir getu. Þannig var maður sem var mjög smávaxinn og kallaður var Diddi dvergur látinn hlaupa styst, enda koma hann oft í mark með þeim fremstu. Þannig fengu allir að vera með.

Úr félagsmálunum í Herði og meðfram starfinu í Útvegsbankanum leiðist Högni út í pólitík, en hann var fyrst kjörinn í bæjarstjórn Ísafjarðar árið 1954 af lista Sjálfstæðismanna. Þar sat hann í þrjú kjörtímabil til 1966, en þótti þá komið nóg af fundarsetum og pólitísku vafstri. Þennan tíma voru Sjálfstæðismenn alltaf í minnihluta því Alþýðuflokksmenn réðu ferðinni. Hann þjálfaðist þó í pólitískum fangbrögðum í samstarfi og samskiptum við menn á borð við Matta Bjarna og Björgvin Sighvatsson (skólastjóra), en þó ekki síst Birgi Finnsson, en hann nýtti sér ýmis trix sem hann lærði af þeim þegar hann var svo beðinn um að taka að sér forystu fyrir Sjálfstæðismenn í kosningunum 1970. Það gerði hann m.a. fyrir orð Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins, en Matthías Bjarnason var þá kominn með báðar lappir á þing. Eftir kosningarnar 1970 varð reyndar hálfgerð stjórnarkreppa í bæjarstjórninni. Þá klofnaði meirihluti vinstri manna þegar maður sem var þeim sumum ekki að skapi var kosinn bæjarritari. Sameiningarmálin við Hnífsdal höfðu líka gengið hálf brösulega, og meirihlutamyndun tafðist eftir að kosið var um sameiningartillögu 1971. Högni var þó kosinn forseti bæjarstjórnar meðal annars með tilstyrk Jóns Baldvins og Frjálslyndra og vinstri manna, en Jón Baldvin var stórhuga stjórnmálamaður sem fékk stórkostlegar hugmyndir þótt hann sæi ekki alltaf hvernig ætti að fylgja þeim eftir – og hann gat stundum lítið sinnt smámálum í nefndarstörfum sakir anna, enda með nýjan menntaskóla í mótun. Á endanum myndaði Sjálfstæðisflokkurinn svo meirihluta með Frjálslyndum og vinstri mönnum og Alþýðuflokksmanninum Sigurði Jóhannssyni. Pólitískum afskiptum Högna lauk svo á því kjörtímabili, því yfirvald Útvegsbankans fyrir sunnan vildi ekki að hann væri að vasast í pólitík ef hann ætlaði sér að verða skipaður formlega útibússtjóri, en því starfi hafði hann gengt frá 1967 er þáverandi útibússtjóri, framsóknarmaðurinn Bjarni Guðbjörnsson, fór á þing. Högni minnist sérstaklega þriggja samherja sem hann starfaði lengst með í bæjarmálunum, Matthíasar Bjarnasonar, Marsellíusar Bernharðssonar og Kristjáns Jónssonar hafnsögumanns.

Bygging sjúkrahúss og stjórnsýsluhúss

Áður hafði Högni þó fengið því framgengt að hafin var bygging sjúkrahúss á Ísafirði. Reyndar var tillaga hans um það samþykkt þegar hann var í minnihluta. Honum sárnaði hins vegar tíminn sem fór í að reisa sjúkrahúsið. Ríkið dritaði peningum til sjúkrahúsbygginga út og suður í smáskömmtum í stað þess að ljúka framkvæmdum á hverjum stað eftir ákveðinni röð.

Högni var minnugur þessa þegar hann átti þátt í því ásamt öðrum að reisa nýtt Stjórnsýsluhús á Ísafirði. Þá kom Högni að því sem útibússtjóri Útvegsbankans og gerði það að skilyrði að hið opinbera tryggði að engar tafir yrðu á verkinu af þess hálfu. Það verk gekk líka mun betur og hraðar fyrir sig en sjúkrahúsið, eða á þremur árum. Bankinn tók að sér að greiða alla reikninga á byggingartímanum og rukka síðan eigendur miðað við eignarhluta þeirra. Í byggingarnefnd voru bæjarstjórarnir Bolli Kjartansson og Haraldur Í. Haraldsson, sem foru formenn, Brynjólfur Sigurðsson fyrir ríkissjóð, Jóhann T. Bjarnason fyrir Fjórðungssamband Vestfjarða og fleiri aðila og svo Högni Þórðarson fyrir Útvegsbankann. „Ég hef aldrei starfað í samheldari nefnd. Síðan ég fluttist suður hef ég á hverju sumri heimsótt Ísafjörð og þá komið í bankann og Stjórnsýsluhúsið. Mér finnst aðdáunarvert hve vel Ísfirðingar ganga um þetta hús.“

Högni hefur frá ýmsu að segja úr íþróttunum og pólitíkinni, en ekki síður úr bankastarfseminni. Frásögn af bankamálunum verður þó að bíða betri tíma, enda gæti sumt af því flokkast undir bankaleyndarmál, sem við bankamennirnir viljum ekki láta fara víðar. Að minnsta kosti ekki í bili.

Stefán Jóhann Stefánsson