Uppgjör Púkamóts 2006

Uppgjör Púkamótsins 2006, frá sjónarhorni Stefáns Jóhanns Stefánssonar, Harðarpúka, árgerð 1957.

Knattspyrnumót í heimsklassa á útilífshelgi á Ísafirði

 

Stóra púkamótið á Ísafirði um síðustu helgi var alveg sérstök upplifun. Þar skemmtu sér saman karlar og konur á aldrinum þrjátíu til sjötíu og fimm eða þar um bil í að leika og horfa á knattspyrnu, söng og í dansi. Stór hluti þátttakenda býr utan Ísafjarðar eins og undirritaður.

Það er minna mál að fara til Ísafjarðar en áður – aðeins fimm til sex tíma keyrsla með litlu stoppi. Þegar búið verður að þvera Mjóafjörð og laga vegi lítils háttar, svo sem um Þorskafjarðarheiði, verður ferðin náttúrulega enn þægilegri. En nóg um það – í bili.

Kropparnir í lagi?

Það var ekki laust við að hjartað tæki dálítinn kipp áður en inn á keppnisvöllinn var komið. Á þessu slóðum hafði ég ekki leikið knattspyrnu í 30 ár – þegar enn vara bara malarvöllur á svæðinu. Nú er ekki aðeins kominn grasvöllur – heldur gervigrasvöllur líka. Og það var vissara að hleypa okkur ekki inn á aðalgrasvöllinn því gervigrasið þolir betur menn í þessum þyngdarflokki. Reyndar hélt góðhjörtuð kona því fram í lokahófinu að ef ekki hefði verið fyrir skalla og grá hár hefðu þessir kroppar alveg eins getað verið á mönnum á þrítugsaldri! Kílóin eru því greinilega á réttum stöðum og í réttum hlutföllum.

Já – sviðsskrekkurinn gerði náttúrulega vart við sig fyrsta daginn. Þarna var fjöldi áhorfenda sem létu í sér heyra með hvatningarópum og hlátrasköllum. Áhorfendur studdu sína menn og höfðu mikla ánægju af tilburðum þeirra sem hefðu getað sómt sér á hvaða knattspyrnumóti sem er. Allir leikmenn kunnu ýmislegt fyrir sér í knattspyrnu – og sumir voru leiknari og þolnari eins og gengur – og einkum þeir sem yngri voru – kannski fyrir utan þann sem var valinn maður mótsins fyrir frábæra markvörslu þótt hann væri elstur eða í það minnsta með þeim elstu. Það var sjálfur Pétur Sigurðsson, formaður Vestra, aðal-púki mótsins. Ég hugsa að sjálfur Buffon hefði ekki gert betur þegar ég skaut af stuttu færi í bláhornið vinstra megin (frá mér séð) – og ég sá boltann í netinu þar til allt í einu Pétur kom eins og elding og fangaði knöttinn. Kannski er honum betur lagið að verjast frá hægri – frá honum séð – eftir áratugalanga verkalýðsbaráttu.

Kroppurinn dofnar!

Það var talsvert kapp í sumum framan af fyrsta deginum og margir góðir sprettir farnir sjálfum sér og áhorfendum til ánægju. Aðeins einn teygði of mikið á sér og þurfti aðstoð til að haltra af velli. Það var hann Gummi Stebbi Maríasson. En svo dofnuðu sprettirnir smám saman og sendingarnar urðu ónákvæmari – aðallega vegna þess að samherjarnir voru ekki nógu fljótir að nálgast sendingarnar, eins og Magnús Reynir veislustjóri sagði.

Í þessum liðum voru margar stórstjörnur úr ísfirskri knattspyrnu, svo sem Jói Torfa, Gummi Óla, Jón Odds og svo Bjössi Helga,  Kitti Muggs og fleiri úr gullaldarliðinu frá 1960 eða þar um bil. Svo voru þarna yngri menn sem maður áttaði sig ekki alveg á strax, fyrir utan Örn, litla bróður Ómars og Jóa Torfa, sem var eins og ný og endurbætt útgáfa af þeim bræðrum. Hann var með mér í liði – og það var bara nóg að senda boltann fram á hann – og hann sá um rest – reyndar með hjálp eins eða tveggja til viðbótar. Okkar lið stóð uppi sem sigurvegari að móti loknu – með Pétur Sigurðs (Hidda málara) í markinu, Geir Viðar Garðarsson, Kitta Muggs, Jón Magnússon, Gunnar Pétur Pétursson, Benna Dodd, Ingvald, Láka Baxter og Örn Torfa. Fleiri voru skráðir en gátu ekki mætt. Það er kannski ljótt að segja frá því, en þegar við sáum fram á það að við gætum sigrað á mótinu og vorum komnir yfir í síðasta leik tókum við upp ítalska knattspyrnuhætti og létum boltann ganga rólega á milli manna í varnarlínunni – og við sögðum markmanninum ekkert að vera að flýta sér að sækja knöttinn þegar andstæðingurinn skaut fram hjá!

Það hefði verið alveg nóg fyrir flesta að leika bara fyrsta daginn. Samt má segja að seinni dagurinn hafi verið betri. Þá voru menn búnir að hlaupa úr sér hrollinn og orðnir aðeins rólegri og vönduðu sig betur við að láta boltann ganga í stað þess að vera að rembast við of mikil hlaup. Ég bjóst reyndar ekki við að geta leikið síðari daginn. Harðir skórnir og gervigrasið áttu ekki beinlínis vel við sinar og vöðvafestingar – svo ég gat varla gengið niður eða upp stiga fyrsta kvöldið. En með heitum bökstrum, góðri hvíld og nýjum og mjúkum skóm tókst einnig að ljúka síðari deginum.

Boxarastelling ekki heppileg

Maður reyndi nú að spila af skynsemi, vitandi að það væri hvorki hollt fyrir mig né aðra að vera með einhver læti á vellinum. Ég held að það hafi tekist, svona yfirleitt, eða þangað til ég sá Jón Odds koma svífandi. Ég vissi að hann er enn með spretthörðustu og leiknustu mönnum á þessu sviði – og því þurfti ég auðvitað að gefa talsvert í til að stöðva hann – en ég var mestan tímann í vörninni. Í eitt skiptið fyrri daginn rákumst við saman og mér tókst að reka höndina framan í hann – án þess að meiðsli hlytust af. Síðari daginn lentum við í samstuði á nýjan leik – og þá tókst mér aftur að reka höndina framan í hann með þeim afleiðindum að hann fékk blóðnasir og þurfti að fara af velli. Ég skildi ekki hvernig þetta gat gerst. Þetta var algjört óviljaverk – en furðulegt að þetta gerðist tvisvar. Ég hafði orð á þessu við einn samherja minn sem sagði að þetta væri ósköp skiljanlegt – því ég setti mig í varnarstellingar hnefaleikamanns þegar ég lenti í samstuði – og þegar einhver lenti á mér spryttu hendurnar bara út og upp. Og þá væri eins gott að vera ekki fyrir!! Mér var hugsað til ráða Luka Kostic landsliðsþjálfara yngri leikmanna um það hvernig varnarmenn ættu að haga handarburði í návígjum. Það voru ekki boxarastellingar – þótt þær geri svipað gagn!

Matur og tónlist í heimsklassa

Samkomurnar á föstudags- og laugardagskvöldum voru stórskemmtilegar. Ennþá hljómar í huga mínum danskt fótboltalag sem ég heyrði þá í fyrsta sinn. Ég þarf endilega að komast yfir textann og biðja einhvern að söngla lagið inná band svo ég geti notað það á næstu ÍR-hátíð. Magnús Reynir Guðmundsson hélt uppi fjörinu með góðri veislustjórn. Ég vissi að hann gat komið vel fyrir sig orði, en ekki að hann væri svona fyndinn – aðallega meinfyndinn, sem var þó vel tekið því á svona stundum ræður púkinn för! Jói Torfa, Gummi Óla og Halli Leifs stýrðu svo að baki veislustjórans, ef ég gat greint rétt. Tilgangurinn er jú meðal annars að styrkja ungt ísfirskt knattspyrnufólk.

Það var gaman að koma í Tjöruhúsið og bragða þar gómsæta fiskrétti og það var ekki síðra að fá að koma í Stjórnsýsluhúsið og snæða þar kvöldverð. Það var ekki verra að vera í sigurliði mótsins og fá forláta minnispening í verðlaun. Þó þótti mér meira vænt um lítið Harðarmerki sem Jenni Kristmanns Harðarformaður nældi í jakkann minn. Þau eru mörg félagsmerkin sem maður hefur séð – en ekkert finnst mér eins fallegt og Harðarmerkið. Kannski er ég bara svona mikill Harðarpúki!

Eftir uppskeruhátíðina í Stjórnsýsluhúsinu var svo skundað yfir í Krúsina, en þar lék ísfirskt tríó fyrir dansi. Það voru þeir Rúnar Þór Pétursson (senter Króks-púka), Samúel rakari og Rúnar Vilbergs. Þetta var besta danshljómsveit sem ég hef heyrt í lengi. Það er náttúrulega tónlistin frá sjöunda áratugnum og þar um bil sem gildir ef maður ætlar að skemmta sér. Rúnar Þór og Samúel sáu einnig um dinnermúsík í Stjórnsýsluhúsinu.

Eftir að dansinn hafði dunað dágóða stund var brunað út í Bolungarvík þar sem dvalið var yfir helgina. Það var dálítill beigur í bílstjóranum á Óshlíðinni svo farþegar skimuðu upp hlíðina albúnir að vara við aðvífandi steinum og björgum. Þótt mér, og sjálfsagt fleirum, hafi ekki þótt annað en sjálfsagt að nota Óshlíðina fyrir 30 árum, þá þykir mér nú það vera réttlætismál að gerð verði göng á milli byggða svo að ekki þurfi að fara Óshlíðina. Það myndi ekki aðeins bæta lífsgæði íbúanna heldur einnig auka hagkvæmni fyrir fyrirtæki og sjálfsagt ýta undir frekari sameiningu sveitarfélaganna á svæðinu sem ætti að vera til hagsbóta fyrir íbúana alla.

Þess má svo geta að það er gott til þess að vita að löggæslan er í lagi á Vestfjörðum, því þegar út í Bolungarvík var komið þá stöðvuðu okkur lögregluþjónar og báðu bílstjórann um að blása í áfengismæli. Vitaskuld var bílstjórinn í löglegu ástandi svo allir voru ánægðir.

Að síðustu er ekki hægt að láta staðar numið án þess að geta mikillar paradísar sem er veiðisvæðið í Syðridal í Bolungarvík; Ósáin, vatnið og Gilsáin. Þetta svæði er fastur viðkomustaður, gefur alltaf fisk og ekki brást það á sunnudagsmorgninum.

Það er því ýmislegt hægt að gera á einni helgi á Ísafirði. Fótboltamennirnir komust ekki – eða höfðu ekki orku – í þær fjallgöngur sem voru á dagskrá, en það var hægt að fara í bátsferðir, golf og fleira sem boðið var upp á þessa útilífshelgi þar vestra. Þessi  helgi mun því lifa í minningunni – og ég er staðráðinn í að koma aftur áður en langt um líður.

Stefán Jóhann Stefánsson, Harðarpúki, árgerð 1957.