Það sem var mörgum leikmönnum púkamótsins efst í huga:
Dómari – hvað er mikið eftir?
Það vantaði ekki fjörið í stóru púkana sem léku sér í fótbolta á gervigrasvellinum á Ísafirði um miðjan júlí. Það bogaði af mönnum svitinn, það var mikið hlegið en lítið grátið. Þó slitu tveir hásinar. Það var líklega ekki mikið miðað við svona mót. Þegar nokkuð var liðið á hvern leik var þó algengasta spurningin sem að ofan greinir. Menn þurftu nefnilega að reikna út hversu mikið menn mættu leggja á sig það sem eftir lifði leiks. Sumur höfðu þó tekið of mikið á eins og leikmaðurinn sem hljóp móður til dómarans og spurði: „Er þetta fyrri eða síðari hálfleikur?“
Mótið gekk smurt og snurðulaust fyrir sig. Reyndar má segja að velflestir leikmenn hafi komið vel smurðir til leiks. Það fór sjálfsagt kíló af hitakremi á skrokkana fyrir leikina og alls kyns olíur sem voru smurðar á vöðva og liðamót. Þó var það hlýtt í veðri að það hélt á manni hita allt mótið. Mótið hófst eins og áætlun gerðir ráð fyrir með setningu klukkan 15, m.a. með því að nokkrir ágætir einstaklingar voru heiðraðir af KSÍ. Þar var mættur formaður KSÍ, Geir Þorsteinsson, og afhenti hann gullmerki KSÍ þeim Birni Helgasyni, Guðmundi Ólafssyni, Hansínu Einarsdóttur, Jens Kristmannssyni, Jóhanni Torfasyni, Magnúsi Hanssyni og Pétri Sigurðssyni. Kristján Pálsson fékk afhent silfurmerki KSÍ.
Síðan hófust leikar og fóru menn misjafnlega hratt í gang. Hinir ungu og óþolinmóðu fóru á fulla ferð, sýndu leikni sýna og eyddu kröftunum óspart, en hinir eldri og reyndari biðu átekta, settu í varnargírinn og biðu rólegir færis. Sú taktík átti eftir að skila árangri þegar upp var staðið.
Hemlunarvegalengd eykst með aldrinum
Annars bar fátt til stórra tíðinda fyrri daginn. Menn voru svona að finna taktinn og athuga hvað þeir gætu; athuga hvernig teipið um ökklann eða hnéð virkaði og kanna hvernig liðsheildin væri. Kjúklingarnir fóru hins vegar á fullt strax og voru eins og þeytivindur út um allan völl. Svo fóru menn reyndar aðeins að gefa í, en þá upphófust árekstrar, eins og þegar Eiríkur Böðvarson náði ekki beygjunni fram hjá Þórði Ólafssyni og gat ekki bremsað heldur skall aftan á honum með nokkrum smelli. Þegar slíkt og þvílíkt gerðist þurftu dómarar leiksins, Jens Kristmannsson og Haraldur Leifsson, stundum að grípa til flautunnar, til að stöðva leik og gefa mönnum færi á að ná áttum, andanum og sáttum.
Flestir léku bara tvo leiki fyrri daginn, nema e.t.v. þeir sem voru keyptir á milli liða og látnir spila meira, öðrum til stuðnings. Eyrarpúkar voru með forystuna eftir fyrri daginn með tvo sigra. Það sagði þó ekki alla söguna, því í öðrum liðum, sem þeir höfðu ekki spilað við voru gamlir refir og landsliðsmenn fyrrverandi og núverandi, svo sem eins og Ómar Torfason, Jón Oddsson, Magni Blöndal, Björn Helgason, Guðmundur Ólafsson og Jóhann Torfason, sem greinilega kunnu margt fyrri sér, en eftirtekt vakti hversu ferskur og léttur á sér Jóhann var. Þá voru þarna margir með ótal meistaraflokksleiki að baki sem bjuggu því að mikilli reynslu.
Saltfiskur í sumarbústaðnum
Að leikjum loknum var síðan haldið í sumarbústað inni í Skógi til Jóa Torfa og hans ektakvinnu, en þar var boðið upp á saltfisk og fleira góðgæti. Þar var líka tekið lagið, bæði undir stjórn Rúnars Þórs Péturssonar, sem hafði samið sérstakt lag fyrir keppnina sem nokkrir fótboltakappar sungu með honum, og Björns Helgasonar, sem stjórnaði norrænum fótboltasöngvum með alhliða hreyfingum, svo allir urðu hressir, kátir og liðugir. Þá fluttu ávörp m.a. Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ og Halldór Einarsson, Henson, framleiðandi íþróttabúninga, en hann hafði framleitt bæði Harðar- og Vestrabúninga fyrir þetta mót.
Laugardagur í lágum gír
Eftir að hafa verði smurðir, vafðir, teygðir og hitaðir um hádegið á laugardegi hófust leikar púkanna að nýju. Þá kom í ljós að Dokkuliðið (appelsínugulir) sóttu allhressilega í sig veðrið og vann sína leiki stórt, enda höfðu þeir krækt sér í atvinnumann á besta aldri frá Danmörku. Í þessu liði voru Jón Oddsson, Páll Ólafsson úr Hnífsdal og sonur hans sem spilar með liði í Danmörku, Sigurður Sigurðsson blómasali, Haraldur Leifsson, Kristján Guðmundsson, Guðjón Sturluson, Jónas Karl Þórhallsson og fleiri. En svo þurftu Páll og sonur hans að bregða sér í afmæli eða brúðkaup – og þá vænkaðist staða annarra.
Rauðliðarnir unnu…..
Svo fór að Eyrarliðið bar sigur úr býtum. Það lék í rauðum búningi sem var á vissan hátt táknrænt, því í vörninni lék sjálfur bæjarstjórinn í Bolungarvík, Grímur Atlason, ásamt Sigurði Péturssyni, bæjarfulltrúa á Ísafirði. Á miðjunni var svo Stefán Jóhann Stefánsson, varaborgarfulltrúi í Reykjavík. Í markinu var Gunnar Bjarni Ólafsson, sem var svo óheppinn að slíta hásin, í annað sinn, en hann sleit hina hásinina á fyrsta mótinu árið 2005. Læknir á að hafa sagt við hann að sinarnar yrðu miklu sterkari á eftir þegar þær yrðu orðnar grónar, þannig að við væntum endurkomu Gunnars sem fyrst, en hann skildi eftir góða kópíu af sjálfum sér í markinu, þ.e. son sinn. (Guðmundur (Muggur) Kristjánsson sleit einnig hásin) Guðjón Andersen var með okkur bæði í vörn og sókn og tókst að skora þegar öðrum tókst það ekki. Þá var Gísli Jón Hjaltason á miðjunni og Halldór Antonson frammi. Fleiri bættust við þegar á leið.
Skipulagið – og „sprengipillurnar“ gerðu útslagið
Þótt þessir menn séu nú ágætir held ég að flestir séu nú sammála um að þetta hafi ekki verið bestu knattspyrnumennirnir ef samanlögð einstaklingsgeta er höfð til viðmiðunar. Áður hefur verið minnst á landsliðsmenn og mikla kappa í öðrum liðum. Það sem gerði útslagið var hins vegar gott og miðstýrt skipulag í vörninni í bland við dálítið sjálfstæði og frjálsræði í sókninni, sem liðsstjórinn, Rúnar Guðmundsson, lagði upp með og hvatti okkur til að fylgja. Við fylgdum því mottói að byrja á vörninni og pökkuðum í vörn til að byrja með og þreyttum hina með því að leyfa þeim að sækja. Þegar vörnin er þétt, og sóknarmenn andstæðinganna eiga margir erfitt með að beygja og bremsa, skilar þessi taktík ágætum árangri. Reyndar fengum við dálítið samviskubit í einum leiknum gegn liði sem Björn Helgason var liðsstjóri í, því við heyrðum hann kalla inn á völlinn að hann hefði aldrei á sinni ævi séð þvílíkan varnarleik. Þá færðum við okkur aðeins framar – eða svona um tvo metra! Við vorum nú líka að leika sömu taktík og hinir ítölsku heimsmeistarar. Saman fylktu þeir liði í vörninni, Grímur bæjarstjóri og Sigurður bæjarfulltrúi, ásamt hinum afturliggjandi tengilið, Stefáni varaborgarfulltrúa. Gísli Jón, sem líka var tengiliður, sýndi þó visst sjálfstæði og fékk visst frelsi til að fara í rispur fram á völlinn. Þessi blanda af miðstýrðri vörn og frjálsri sókn skilaði líka árangri – og í úrslitaleik á milli Eyrarpúka og Dokkupúka skoraði Gísli Jón eina markið og það sem réði úrslitum. Eitthvað vildu nú andstæðingarnir meina að haft hefði verið rangt við því Gísli hefði tekið einhverja pillu fyrir leikinn. Sjálfsagt hefur þessi „sprengipilla“ gefið Gísla þann kraft sem dugði í lokin, en pillan var þó sárasaklaus og ólyfseðilsskyldur þrúgusykur sem einn Eyrarpúkanna hafði með sér ásamt hitakremum, teipi og olíu af ýmsu tagi.
Að leik loknum
Okkur var ókunnugt um þann harmleik sem hafði átt sér stað á Kaldbak milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar skömmu áður en mótið hófst að nýju eftir hádegi á laugardegi, þegar Einar Oddur Kristjánsson, alþingismaður Vestfirðinga varð bráðkvaddur á fjallgöngu. Síðdegis og um kvöldið barst þessi harmafregn þó hratt út.
Við komum saman til hátíðarkvöldverðar í Stjórnsýsluhúsinu á laugardagskvöldinu. Þar var borið fram hlaðborð af bestu gerð undir stjórn Margrétar Ólafsdóttur og systra hennar. Rúnar Þór Pétursson lék dinnermúsík af sinni alkunnu snilld. Veislustjóri var Sigurður Pétursson. Verðlaun voru veitt, sérsaumaðar, sameiginlegar treyjur Harðar og Vestra boðnar upp, söngvar sungnir og svo voru flutt ávörp og sagðar sögur. Björn Helgason stjórnaði fjöldasöngnum. Halldór Einarsson tók til máls, sem og Jens Kristmannsson og Pétur Sigurðsson, sem sagði sögu af skilningsríkum lögregluþjóni þegar fimmti flokkur Vestra var á keppnisferðalagi í Reykjavík, en sagan er látin flakka með hér í lokin.
Flytja þurfti fimmta flokk með hraði…
Til að gera langa sögu stutta þá þurfti að koma 10 strákum úr fimmta flokki með hraði vestan af KR-velli upp í Ármannsheimili, því síðan þurftu piltarnir að ná flugi til Ísafjarðar. Til staðar var Pétur Sigurðsson, þáverandi formaður Vestra, á Volkswagen bifreið, ósköp venjulegri. Þetta hefur sjálfsagt verið í kringum 1968, eða rétt eftir að hægri umferð var tekin upp. Ekki var um annað að gera en að pakka vel í bílinn. Einhverjir litlir fóru í farangursboxið sem var aftur í þessari gerð af Volkswagen. Þá var þétt raðað í sætin og svo lágu tveir á gólfinu að aftan. Ferðin gekk vel sem leið lá upp Hringbraut og Miklubraut, en þegar beygja átti inn í Lönguhlíð fataðist bílstjóranum eitthvað, því aðvífandi kom lögreglubíll og stöðvaði för Vestraforingjans og upprennandi fótboltastjarna sem voru í bílnum með honum. Lögreglumaður vindur sér upp að bílnum farþegamegin og segir við bílstjórann að hann hafi ekki farið alveg rétt inn í Lönguhlíðina. „Nei,“ sagði bílstjórinn, „ég er nú fremur ókunnugur hér í borginni. Ég er utan að landi.“
Þá lítur lögregluþjónninn á farþegana í aftursætinu og segir: „Eru þeir ekki nokkuð margir?“
„Jú,“ segir Pétur, „en þeir eru frekar smáir.“
Þá gengur lögregluþjónninn fram fyrir bílinn, kemur að bílstjórahurðinni, bendir bílstjóranum að skrúfa niður rúðuna og síðan segir lögregluþjónninn lágum rómi:
„Heldur þú að þú verðir nokkuð lengi í bænum?“