Harðverji í húð og hár Það var þessi lykt sem var svo sérstök. Ég hafði aldrei fundið neina í líkingu við hana áður og ennþá man ég hana. Búðin sem hafði þessa lykt var líka nokkuð sérstök. Neðarlega í bænum og ekki ætluð fyrir unga drengi. Samt sem áður var ég kominn þangað inn ásamt nokkrum ungum neðribæjarpúkum. Erindið var einfalt. Ekki að kaupa þær veigar sem réttar voru yfir borðið til viðskiptavina. Nei, við vorum komnir til þess að ganga í Hörð. Formaðurinn var til staðar og brá sér inn á skrifstofu. Kom þaðan með litla bók sem hann skráði samviskusamlega í nöfnin okkar. Og svo var auðvitað spurt líka að því hverra manna við værum. Það þurfti að fylgja. Ég sló um mig í púkahópnum með því að fullyrða að hann væri frændi minn. Gat nú reyndar ekki útskýrt í þá daga hvernig hann væri frændi minn. Síðan eru liðin á fimmta tug ára. Kallinn, sem okkur fannst formaðurinn vera, er ennþá til staðar á Ísafirði. Hefur í sextíu ár stundað og starfað að íþrótta- og félagsmálum í sínum bæ. Er nú samt ennþá í fullu fjöri og á mikið ógert ef að líkum lætur. Jens Kristmannsson þekkja allir íbúar Ísafjarðar. Hann er einn af föstu punktunum í tilverunni á Ísafirði. Varð kornungur formaður eins stærsta og glæsilegasta íþróttafélags landsins. Plássins vegna verður ferill hans í félagsmálum ekki rakinn nákvæmlega. Í aðdraganda púkamóts á Ísafirði rifjar Jens upp lítið brot af sínum ferli fyrir unga, feitlagna rauðhærða drengnum sem forðum kom í Ríkið til þess að skrá sig í Hörð.
„Ég er fæddur og uppalinn í Norðurtanganum, nánar til tekið í Tangagötu 29, og er því Norðurtangapúki. Í Tangagötunni bjó ég fyrstu 28 ár ævinnar. Á mínum uppvaxtarárum voru margir púkar á mínum aldri og sumir nokkuð eldri og yngri, sem kölluðust Norðurtangapúkar. Ef líf og fjör var í leikjum var ekkert kynslóðabil, þá mættu pabbarnir og öll eldri systkini í boltaleik á Austurveginum. Ef einhverja skal nefna í pabbahópnum get ég nefnt Sigtrygg Jörundsson, Kristmund Bjarnason og Guðmund Í Guðmundsson sem flestir þekktu betur sem Mugg á Grænagarði. Þessir kallar ásamt mörgum öðrum léku sér með okkur krökkunum í boltaleikjum. Aðalleiksvæðið var nú samt Riistúnið þ.e. svæðið á bakvið skólana. Ef ekki var fótboltinn eða aðrir boltleikir þá var leiksvæðið fjaran í Norðurtanganum og Dokkan. Ekki má heldur gleyma þeim dögum þegar stríð brast á við Miðbæjarpúkana og Krókspúkana.“ „Íþróttaáhuginn er í blóðinu og þá sérstaklega áhuginn á fótboltanum. Ekki vorum við bræður lattir í heimahúsum til þess að stunda fótbolta þó svo að stundum hafi skófatnaðurinn dugað skammt eða réttara sagt stutt. Foreldrar okkar Björg Jónsdóttir og Kristmann Jónsson höfðu mikinn áhuga á íþróttum og fylgdust vel með. Karl faðir minn var í Herði og spilaði á árunum 1922 til 1929. Það er nú hálf hjákátlegt að heyra spurningu þess eðlis að hvað valdi áhuga manns á íþróttum. Ég er nú búinn að starfa fyrir íþróttahreyfinguna í rúm 50 ár og man ekki til þess að hafa fengið þessa spurningu fyrr. Knattspyrna er ein skemmtilegasta íþrótt sem iðkuð er og getur verið sú fallegasta ef vel og drengilega er leikið.“ „Nei, nei. Jón og Kristmann voru viðriðnir fleiri íþróttagreinar og þá sérstaklega Jonni. Ég man eftir honum í knattspyrnu, skíðum, hnefaleikum, handbolta, frjálsum og fimleikum. Kristmann var í knattspyrnu , sundi, handbolta og fimleikum. Sjálfur kom ég aðeins að handbolta og fótbolta en samt tóku íþróttirnar og félagsstörf þeim tengdum allan minn tíma þegar kom fram á unglingsárin og því var lítið um aðrar tómstundir.“ „Allt má nú kalla feril. Eins og víða hefur komið fram var aðstaða til íþróttaiðkana ekki sérlega góð hér á árum áður á Ísafirði. Við höfðum íþróttavöllinn við Grund, Hrossataðsvöllinn, fyrir fótbolta og frjálsar. Hann var holóttur maralvöllur sem íþróttamenn sáu sjálfir um að raka af grjótið, holufylla og merkja. Lengi vel var engin búningsaðstaða við völlinn en um síðir byggðum við hana sjálfir, með lítilsháttar utanaðkomandi aðstoð. Það hús stendur enn við við hlið leikskólans í Eyrargötu. Barátta fyrir Torfnessvæðinu hófst um miðjan sjötta áratuginn og til eru teikningar af svæði þar með ártalinu 1956. Þær teikningar eru ekki mikið frábrugnar svæðinu sem nú er í hringum grasvöllinn á Torfnesi. Handbolti karla og kvenna var stundaður á Sjúkrahústúninu. Þrátt fyrir það að aðstaðan hafi ekki verið upp á það besta á eignuðumst við Harðverjar landsliðamann í handbolta. Það var landsliðsmarvörðurinn Steinunn Annasdóttir, móðir Margrétar tómstundafulltrúa Ísafjarðarbæjar. Skíðabrekkur höfum við alltaf haft mjög góðar. Malarvöllinn á Grund misstum við á miðju keppnistímabili í 1. deild árið 1962 og vorum vallarlausir að mestu fram í júlí 1964 að íþróttavöllurinn á Torfnesi var formlega vígður, með ræðuhöldum og fíneríi og kappleik við Siglfirðinga. Ein setning úr ræðu þáverandi forseta bæjarstjórnar Ísafjarðar, Bjarna Guðbjörnssonar, á þessum tímamótum hefur lengi setið í mér. Hún var orðrétt svona: „Hér er aðeins byrjunin, nú verður haldið áfram uppbyggingu svæðisins og lokið hið fyrsta við fullkomið íþróttasvæði samkvæmt fyrirliggjandi teikningum.” Hér varð nú samt stopp til vors 1966 að lítilsháttar framkvæmdir fóru fram við áhorfendasvæði í tengslum við 100 ára afmæli bæjarins. Síðan var ekkert gert þar til knattspyrnumenn úr Herði og Vestra hófust handa við að leggja gras á völlinn árið 1979 og hann var síðan vígður 1980.“ „Það er von að menn skilji þetta ekki í dag. Svona var staðan þá er við spiluðum í efstu deild í fyrra skiptið. Við sömdum um vorið um að spila alla okkar heimaleiki í fyrstu deildinni fyrri hluta sumars 1962. Næsta árið æfðum við víða um bæinn, á Wembley þeirra Hnífsdælinga, í Tunguskógi og fleiri stöðum. Heimaleikina urðum við að spila fyrir sunnan. Þetta voru ekki skemmtilegar aðstæður og ekki íþróttinni til framdráttar. Menn trúðu hins vegar að mikil uppbygging væri framundan, sem því miður reyndist ekki rétt. „Jú það voru mörg púkafélaög í bænum. Í Norðurtanganum og nágrenni voru félög sem ég man eftir og hétu Víkingur og Óðinn. Félögin innan Íþróttabandalags Ísafjarðar voru þá Hörður , Vestri, Skíðafélagið, Ármann í Skutulsfirði og Reynir í Hnífsdal.“ „Það kom aldrei neitt annað til greina en að ganga í Hörð. Flestir vinirnir voru þar og svo fékk ég líka hvatningu að heiman. Þegar ég byrja að æfa og spila fótbolta var Guðmundur Benediktsson prentari formaður Harðar. Hann þjálfaði okkur púkana 1953 og 1954. Hann fór meðal annars með okkur í keppnisferð til Siglufjarðar. Hingað kom í fjöldamörg ár Axel Andrésson og hélt hér námskeið fyrir unga drengi og kenndi fótbolta. Axel var stofnandi Víkings í Reykjavík. Það voru margir kappar sem maður leit á með virðingu í þá daga. Það væri ekki rétt af mér að nefna nöfn því hætt er við að einhver gleymist. Best man ég þó eftir árunum í 3.flokki þegar Gunnar Sumarliðason þjálfaði okkur. Hann hafði alltaf tíma til að ræða við okkur um fótbolta. Hann var nefnilega póstur í þá daga og við strákarnir vorum með honum í útburðinum. “ „Jú rétt er það. Víst var félagið deildskipt. Fyrst var bara skíðadeildin sér, en á árunum 1961 og 1962 voru stofnaðar knattspyrnudeild, handknattleiksdeild og sunddeild í viðbót við skíðadeildina. Þetta létti mikið á störfum aðalstjórnarinnar. Formaður og gjaldkeri félagsins voru þó alltaf virkir með stjórnum deildanna. Ég man í svipinn eftir tölum úr skýrslum þar sem félagsmenn voru sagðir tæplega sexhundruð og virkir í starfi rúmlega þrjúhundruð. Þá í æfingum, keppnum eða við stjórnar- eða nefndarstörf. Ástæða þess að félagið varð svona stórt var sú að mikið var gert fyrir krakkana og mikið starfað með þeim.Farið var reglulega í útilegur í Harðarskálann og/eða í ferðalög bæði stutt og löng. Þegar litið er til baka þá held ég að útilegurnar í Harðarskálanum kannskii 2 til 3 fyrir hvern flokk yfir veturinn hafi haft veruleg áhrif um það að börn vildu ganga í Hörð.“ „Ef feril skyldi kalla. Ég byrjaði að keppa 11 ára og hætti 21 árs þegar ég varð fyrir því óhappi að slasast á olnboga í leik við KR í 1. deild árið 1962. Þeir bræður mínir Jón og Kristmann, voru miklu lengur með. Við náðum því þó að spila í sama liði bæði hjá Herði og ÍBÍ. Hvað félagsmálin varðar þá tók ég sæti í stjórn ÍBÍ og í stjórn Harðar 1956-1957.“ -Þú verður formaður Harðar nánast á unglingsárum. Hvernig kom það til? Ég varð formaður Harðar 19 ára árið 1960 og var formaður til 1982 er Magnús Kristjánsson tók við. Það má segja að ég sé búinn að vera í stjórn Harðar frá 1956 til 2006 að undanskyldum þeim árum sem ég var formaður ÍBÍ og í stjórn ÍSÍ.Víst var ég bara unglingur þegar ég tók við sem formaður Harðar. Ástæðu þess að leitað var til mín veit ég ekki. Líklega var það þreyta hjá þeim eldri. Aðdragandinn var enginn. Tveir heiðursmenn sögðu við mig rétt fyrir aðalfund: „Þú verður formaður. Við hjálpum til og styðum við bakið á þér.” Þar með var mér kastað út í djúpu laugina. Hvernig til tókst er annarra að dæma um. Auðvitað var þetta ekki létt verk fyrir ungan mann en reyndir og góðir menn hjálpuðu mikið til. Ég var svo heppinn að með mér í stjórn fyrstu árin voru Albert Karl Sanders , Gunnar Sigurjónsson, Gunnlaugur Ó. Guðmundsson og Guðfinnur Kjartansson. Diddi Bjarna (Friðrik Bjarnason formaður Vestra) sagði eitt sinn við mig að það hefði hlakkað í sumum Áður en ég fór sjálfur að búa, sá móðir mín um allan búningaþvott og hafði til kaffi fyrir stjórnarfundi. Það kom stundum fyrir að við vorum með mötuneyti í Kaupfélagssalnum fyrir íþróttahópa sem voru í heimsókn og þá sá mútta um það til að lækka kostnaðinn. Hún var í Herði blessunin en hún var aldrei rukkuð um ársgjald. Seinna sá konan mín, Sigríður Þórðardóttir um búningaþvottinn þar til verkinu var skipt á þjálfarana.“ Ég man eftir því að það voru eitt sinn 32 strákar 13 – 14 ára á fundi heima hjá mér við undirbúning að fjáröflun til ferðar austur og norður í land.“ „Það er rétt að ef um var að ræða ungan og efnilegan íþróttamann, sem vantaði sumarvinnu, þá skaðaði það ekki ef hann var í ákveðnu félagi ef sótt var um vinnu. Það var þó ekki úrslitaatriði. Stundum var síðan formaðurinn beðinn að hafa áhrif á ákveðnum vinnustöðum.“ „Já ég var 17 ára að þjálfa 4. og 5 flokk í knattspyrnu þegar hér var haldið
„Það var alltaf erfitt að fá menn til að dæma. Þó svo að menn hafi sótt námskeið og tekið próf. Það var , er og verður vanþakklátt starf að vera dómari, en samt gefur það mikið. Það var ekki erfitt að vera dómari hjá þeim yngstu, en þegar barnið varð unglingur eða fullorðinn, þá varð oft að stilla til friðar og biðja menn að gæta tungu sinnar. Þetta vandamál var oftar en ekki tengt forráðmönnum liða og foreldrum þeirra sem voru að spila. Ekki síst þegar fullorðið fólk var að hvetja börn og unglinga til óknytta í garð dómara. Það eru mörg atvik sem sitja í minni manns frá dómaraferlinum. Það væri hægt að nefna mörg dæmi. Eitt sinn var ég að dæma leik utan Ísafjarðar og þekkti engan í keppnisliðunum. Leikurinn var erfiður, mikið um pústra og spörk að ekki sé minnst á ljót orð bæði á vellinum og meðal áhorfenda. Leikurinn endaði 2-2 en leikmönnum hafði fækkað um 3 í hvoru liði. Eftir leikinn var haldin mikil veisla. Ég var í vafa hvort ég ætti að þora að mæta. Í veislunni voru margar ræður fluttar og í þeim öllum var dómarinn talinn besti maður leiksins og var leystur út með gjöfum. Eitt erfiðasta atvik, sem ég lenti í varðandi svona var á gamla vellinum við Grund. Þá var Diddi málari að dæma og rak einn útaf. Sá neitaði að fara af velli og þurfti ég að sækja hann inná völlinn því munnsöfnuður hans var slíkur að ekki var viðunandi. Dómarar eru mannlegir og geta gert mistök eins og annað fólk, en engan þekki ég sem viljandi hallar á annan í leik. Ég fór í fyrra með sonarsyni mínum á Króksmótið, sem er knattspyrnumót 7.flokks. Í einum leiknum þurfti dómarinn að stöðva leikinn og tilkynna foreldrum og forráðamönnum eins liðsins að ef ekki yrði lát á munnsöfnuði þeirra yrði leikurinn flautaður af, því hér væru börn að leika knattspyrnu. Þetta voru ekki Ísfirðingar. Ég man eftir skemmtilegu atviki, sem mér var sagt frá, þegar ég hafði lokið við að dæma prófleikinn sem landsdómari. Hér voru Færeyingar í heimsókn og ég dæmdi. Eftir leikinn sögðu prófdómararnir hér að einn góðborgarinn hafi spurt í miðjum leik hvort dómarinn mætti dæma víti á okkar menn. Prófdómararnir sem fengu þessa einkennilegu spurningu voru Einar Hjartarson og Friðrik Bjarnason. Auðvitað eru menn settir í erfiða aðstöðu þegar þeim er gert að dæma leiki á heimaslóðum og mitt hlutskipti var oft skrítið og erfitt að þegar ég var á línunni eða á flautunni á heimslóðum.“ „Það var mjög snemma sem félögin Hörður og Vestri tefldu fram sameiginlegu liði í meistaraflokki, þegar spilað var í Íslandsmóti, bikarkeppni eða þegar lið voru í heimsókn hér vestra. Þó voru alltaf 1 til 2 leikir á ári í meistaraflokki milli Harðar og Vestra, oft langskemmtilegustu leikir ársins. Það má lesa um þetta samstarf félaganna í annálum t.d. voru „Vissulega var margt sameiginlegt í báðum þessum tilfellum. Það voru samhentir og áhugasamir menn við stjórn knattspyrnumála, sem og við æfingar og keppni. Menn sem höfðu ákveðin markmið og metnað til að vinna að þessum markmiðum. Þetta smitaði út frá sér, bæði til þeirra sem æfðu og þeirra sem studdu liðin og hvatti menn til dáða. Þá tóku menn æfinguna fram yfir ýmislegt annað. Einnig voru á þessum tímum margir mjög góðir menn í okkar röðum, en engar stórstjörnur, enda byggist boltinn upp á liðsheild bæði innan og utan vallar.“ „Já það er mikið ánægjuefni að eftir umbrot undanfarinna ára í íþróttastarfinu hér á Ísafirði skuli hafa lifnað svo um munar yfir Herði. Félaginu stýrir í dag Hermann Níelsson sá kraftmikli íþróttafrömuður. Hann er alinn upp í Herði þegar starf félagsins var hvað blómlegast. Hermanni og samstarfsmönnum hans hefur á stuttum tíma tekist að byggju upp öfluga glímusveit og einnig eru æfingar í handbolta og frjálsum íþróttum. Þegar Ísafjarðarkaupstaður varð 100 ára árið 1966 samþykktu bæjarfulltrúar þá stefnumörkun að 1% af útsvarstekjum bæjarfélagsins skyldu renna til íþróttamála. Mig grunar að aðeins hafi verið staðið við þetta markmið fyrsta árið. Ég efast ekki um að við stæðum sterkar að vígi ef okkur hefði borið gæfa til þess að standa betur við bakið á íþróttastarfinu á undanförnum áratugum. Þjóðfélagsaðstæður hafa gjörbreyst á undanförnum árum. Nú geta fæstir gefið af sér jafn rúman tíma til félagsstarfa í sjálfboðavinnu og áður. Nú vinna foreldrar langan vinnudag. Því er mun meira áríðandi að sveitarfélögin og ríkisvaldið komi til móts við það mikla starf sem unnið er í íþróttahreyfingunni. Það er enginn vafi í mínum huga að það skilar samfélaginu margfalt til baka.“ Þeim fækkar félagsmálamönnunum sem eru tilbúnir að leggja á sig ólaunuð félagsstörf. Að menn leggi á sig slík félagsstörf svo áratugum skiptir sjáum við tæplega í bráð. Jens frændi minn er ennþá á besta aldri en hefur þó unnið að félagsmálum lengur en stærstur hluti landsmanna hefur lifað. Að fortíð skal hyggja er framtíð skal byggja. Því er afar mikilvægt að þeir sem yngri eru leiti óhræddir í smiðju þeirra eldri. Þeir eru ekki dónalegt bakland menn með slíka reynslu og þekkingu. Hvað er félag án sögu, reynslu og árangurs? Söguna þarf líka að skrá alla og líka rétta. Þar er mikið verk að vinna sem ráðast verður í áður en þeim fækkar meira mönnunum sem nánast allt sitt líf hafa helgað sig störfum að félagsmálum. Það var þetta sambland af pappalykt, tóbakslykt og kannski örlítilli vínlykt sem fyllti vit ungu mannanna þegar þeir komu forðum til fundar við formanninn í búð fullorðna fólksins. Skrítin samsetning á inngöngu í íþróttafélag. Þó íþróttaferill þess er hér skrifar hafi ekki orðið langur, raunar afar stuttur, þá skrifast það ekki á áðurnefndar aðstæður. -Halldór Jónsson. |