Uppgjör Púkamóts 2008


Stóra Púkamótið á Ísafirði er orðinn klassískur viðburður, enda
hlotið sérstaka viðurkenningu KSÍ fyrir grasrótarstarf. Fáeinir sprækir
púkar komu hugmyndinni á framfæri og ýttu henni á flot ásamt fleirum
fyrir þremur árum. Mótið verður því haldið í fimmta sinn á næsta ári.
Þetta er kjörið tækifæri til að koma saman eina helgi á Ísafirði, leika
sér aðeins í fótbolta, halda veislu, skemmta sér og styrkja í leiðinni
íþróttastarf fyrir ungmenni á svæðinu.

Sem fyrr var veðrið frábært, þurrt og hlýtt föstudaginn 11. júlí og
svo þegar spennan náði hámarki á laugardeginum gerði örlitla úrkomu,
svona rétt til að kæla mannskapinn. Til skýringa skal þess getið að í
mótsbyrjun er leikmönnum raðað af handahófi í lið sem ættu tæknilega
séð að vera í álíka gæðaflokki þótt dagsformið skipti náttúrulega líka
máli. Liðin eru að jafnaði kennd við Dokkupúka, Bakkapúka, Krókspúka og
Hlíðarvegspúka.

„Grái fiðringurinn geystist fram“

Fljótlega kom í ljós að „Grái fiðringurinn“, eða Dokkupúkarnir, var
sprækasta liðið, enda hafði það á að skipa að jafnaði meiri
reynsluboltum en önnur lið, auk þess sem helstu hugsuðir mótsins að
þessu sinni voru þar saman komnir, m.a. þeir Guðmundur Ólafsson og
Frímann Sturluson, en sá síðarnefndi varði markið af mikilli snilld
ásamt Pétri Sigurðssyni verkalýðsforingja. Þá höfðu þeir helstu lækna
staðarins, þá Þorstein Jóhannesson yfirlækni og Hannes Haraldsson – svo
það var stutt í aðstoð ef skrokkurinn hikstaði. Þessar kempur nutu svo
liðsinnis nokkurra sprækra hlaupagikkja, sbr. meðfylgjandi mynd. Grái
fiðringurinn hafði yfirhöndina í fjórum af sex leikjum, tapaði einum og
gerði eitt jafntefli, strákarnir skoruðu þrettán mörk og fengu 9 á sig
– en leikin var tvöföld umferð og var leiktími tvisvar sinnum 10
mínútur. Hlutu hinir gráu, kenndir við Dokku, sigurlaun að lokum, þ.e.
Kristjánsbikarinn, sem kenndur er við Kristján heitinn Jónasson.

Dokkupúkar – grái fiðringurinn

Efri röð frá vinstri: Geir Garðarsson, Jón Örn Guðbjartsson, Guðmundur
Ólafsson, Frímann A. Sturluson, Kristján H. Arnarsson, Guðmundur
Gíslason og Árni B. Hjaltason. Neðri röð frá vinstri: Helgi F.
Arnarson, Hannes H. Haraldsson, Pétur Sigurðsson, Höskuldur Bragason og
Halldór Friðgeir Ólafsson. Á myndina vantar Þorstein Jóhannesson (hann
var keyptur yfir til að styrkja liðið eftir að myndin var tekin).
Fyrirliði var Pétur Sigurðsson og liðsstjóri Halldór F. Ólafsson.

Grænjaxlarnir / Krókspúkarnir

Eins og gildir um grænjaxla var
upphafið og endirinn ekki góður hjá Krókspúkunum en miðtaflið var þeim
mun betra og þá sýndu þeir líka súpertakta og skoraði Jón Oddsson
nokkur glæsilegustu mörk mótsins (áður en hann fór að eiga við minni
bolta, þ.e. golfbolta, síðari daginn). Þeir unnu þrjá leiki, töpuðu
tveimur og gerðu eitt jafntefli, skoruðu 10 mörk og fengu 6 á sig og
enduðu í 2. sæti.

Krókspúkar – grænjaxlarnir

Efri röð frá vinstri: Ingvaldur Gústafsson, Sigurður Pétursson, Hlöðver
Rafnsson, Ingvar Ágústsson og Jón H. Oddsson. Neðri röð frá vinstri:
Gunnar Pétursson, Pétur Sigurgeir Sigurðsson og Gísli Jón Kristjánsson.
Á myndina vantar Jens Kristmannsson, Halldór Eraclides, Þórð Pálsson og
Óla Lyngmó. Liðstjóri var Gunnar Pétursson og fyrirliði Sigurður
Pétursson.

Hlíðarvegspúkar – bláliðar

Það var allt upp í loft hjá okkur
bláliðunum, þ.e. Hlíðarvegspúkunum, fyrri daginn. Skipulagið var í
algjörum molum fyrir utan það að Jóhann Guðmundsson tætti stöðugt í
sundur vörnina hjá andstæðingunum. Þar fyrir utan var samspilið álíka
og hjá ónefndum borgarstjórnarflokki. Innáskiptingar voru
tilviljanakenndar og svæðisskipulag af skornum skammti. Þetta var
stundum eins og hjá 8. flokki þar sem allir voru í hnapp á eftir
boltanum. Við svo búið mátti ekki standa, enda tók Jóhann Torfason sér
hvíld frá dómgæslu og öðrum skyldustörfum síðari daginn (hann mátti því
miður ekki spila með okkur vegna lítils háttar meiðsla) og skipulagði
leik liðsins frá grunni. Það var ekki að sökum að spyrja. Þetta var
orðið sannkallað íhaldslið sem hélt sínum stöðum og markinu hreinu mest
allan tímann – enda allt byggt upp frá vörninni og skyndisóknum beitt
til að koma andstæðingunum á óvart. Og liðið stóðu uppi sem afgerandi
sigurvegari síðari daginn með tvo unna leiki og eitt jafntefli.
Samanlagt fékk liðið sjö stig, skoraði 7 mörk og fékk á sig 13 mörk –
þar af 11 fyrri daginn. Enda má segja að mestu umskipti mótsins hafi
verið hjá markverði liðsins, Hreiðari Sigtryggssyni, sem varði nánast
allt síðari daginn og sumt með snilldartilþrifum. Eins og gildir hjá
meisturum þá var heppnin líka með því þó nokkrir boltar höfnuðu í stöng
eða slá. Besti púki mótsins var einnig valinn úr þessu liði, þ.e.
Stefán Jóhann Stefánsson, sem hlaut Hafþórsbikarinn að launum, en sá
bikar er nefndur eftir Hafþóri Sigurgeirssyni sem tók þátt í fyrsta
mótinu en lést af slysförum um borð í skipi sem hann var á.

Hlíðarvegspúkar – bláliðarnir

Efri röð frá vinstri: Pálmi Gunnarsson, Guðjón Elí Sturluson, Eiríkur
Böðvarsson, Þorsteinn Jóhannesson (var óvart seldur til gráa liðsins í
byrjun móts) Stefán Jóhann Stefánsson og Sveinn Arnarsson. Neðri röð
frá vinstri: Ásberg Pétursson, Gunnar Sigurjónsson, Hreiðar
Sigtryggson, Jóhann Guðmundsson og Jón Þór Ágústsson. Á myndina vantar
Jóhann Torfason, Magnús Jóhannesson, Gunnar Torfason, Odd Jónsson og
Rúnar Eyjólfsson. Fyrirliði var Hreiðar Sigtryggsson og liðsstjórar
þeir Jóhann Torfason og Gunnar Sigurjónsson.

Rauðliðarnir – Bakkapúkar

Rauðliðarnir voru engir aukvisar við
að eiga, enda var liðið skipað fyrrverandi atvinnumönnum og útlendingum
að auki, þ.e. Svensken (Lúðvík Georgsson) var þar í markinu. Í liðinu
var bæði mesti naglinn og prúðasti leikamaðurinn þannig að jafnvægið
var gott. Magni Pétursson, margfaldur Íslandsmeistari með Valsmönnum og
fyrrum atvinnumaður var valinn prúðasti leikmaðurinn og hlaut að launum
Gumma Jó bikarinn sem nefndur er eftir Guðmundi Jóhannssyni sem lék með
meistaraflokki ÍBÍ um og upp úr 1980 og lést langt fyrir aldur fram.
Þar var líka Rúnar Þór, aðalsenter mótsins og markaskorari, sem átti
ein bestu tilþrifin þegar hann lét það ógert af einstakri kurteisi og
tillitssemi að þruma boltanum í netið hjá aldursforseta mótsins eftir
glæsilega fyrirgjöf. Slík gjafmildi er sjaldséð nú orðið.

Bakkapúkar – rauðliðarnir

Efri röð frá vinstri: Finnur Magni
Finnsson, Magni Blöndal, Páll Hólm, Þorleifur Ágústsson, Kristján
Jóakimsson og Haraldur Leifsson. Neðri röð frá vinstri: Sigurvin
Sigurjónsson, Halldór Antonsson, Rúnar Þór Pétursson, Lúðvík Georgsson,
Ólafur Sigurðsson og Bjarnþór Sverrisson. Fyrirliði var Rúnar Þór
Pétursson og liðsstjóri Ólafur Sigurðsson. Á myndina vantar Bjarna
Albertsson, Örn Torfason og Jón H. Pétursson.

Kynnir og veislustjóri

Halldór Jónsson var bæði vallarþulur og veislustjóri – og stóð sig með stakri prýði.

Brögðum var beitt

Þar sem skrásetjari var í bláa liðinu getur
hann, nú eftir á, upplýst um ýmis brögð sem notuð voru síðari daginn
þegar við nutum leiðsagnar Jóhanns Krókness Torfasonar. Fyrsta reglan
var náttúrulega passa upp á vörnina og halda hreinu og þegar við vorum
komnir yfir að tefja leikinn með öllum þeim ráðum og meðulum sem
gáfust. Sérstaklega var Hreiðar laginn við að taka góðan tíma í
útspörkin. Eins tókum við extratíma í töfluæfingu í leikhléi. Urðu þá
andstæðingarnir æði pirraðir og fóru að leika af sér af minnsta
tilefni. Önnur reglan var sú að spara kraftana sem mest og nota
andstæðingana sem stuðpúða eftir því sem hægt var. Þannig voru menn
ekkert að bremsa að óþörfu heldur létu sig falla á andstæðinginn og svo
var bara sagt: „Fyrirgefðu, elsku besti vinur – ég sá þig bara alls
ekki.“ Í síðasta leiknum, gegn gráliðunum, Dokkupúkunum sem unnu mótið,
gekk þetta aldeilis glimrandi. Við vorum yfir mestan hluta leiksins
eftir að hafa skorað óvart úr einni fyrirgjöfinni og svo pökkuðum við
bara í vörn, sem þó brást á síðustu sekúndum þannig að Dokkupúkum tókst
að jafna eftir að hafa þrumað sirka tíu sinnum í stöngina – og varð
mikill fögnuður í liði þeirra og sáust þá hrifningartár glitra á
hvarmi.

Jón Oddsson sýndi gamla takta

Ýmsir sýndu gamla taka á vellinum. Hér sýnir Jón Oddsson hvernig á að gefa fyrir.

Hvert fór boltinn?

Hér gefa Eiríkur Böðvarsson og Sigurvin Sigurjónsson ekkert eftir.

Stæltir vöðvar hrifu

Áhorfendur skemmtu sér konunglega yfir
tilþrifum leikmanna sem höfðu engu gleymt þótt lappirnar og búkurinn
hlýddu ekki alltaf öllum skipunum möglunarlaust. Svo tóku meyjar
staðarins engu minni andköf af fögnuði þegar Bjarnþór Sverrisson þurfti
að fara úr að ofan til að smeygja sér í útitreyju en þegar markvörður
Rúmena beraði á sér brjóstin á Evrópumótinu um daginn. 

Rétt innkast!

„Strákar, svona takið þið rétt innkast“, mætti lesa úr svip Rúnars Þórs Péturssonar.

Þrumað á Hreiðar!

Hér þrumar Sigurvin knettinum að marki en Hreiðar ver!

Staðið í lappirnar!

Það er eins gott að standa rétt: Kristján,
Magni og Finnur í rauða liðinu – og Guðmundur Ólafs og Guðmundur
Gíslason í gráa liðinu.

Örvænting og ánægja

Magni, Baddó og Kristján ekki kátir, en Jón Örn og Hannes hins vegar ánægðir með að sjá knöttinn fara í netið.

Fór hann inn?

Þótt gráir færu með sigur af hólmi þurftu þeir stundum að taka á honum stóra sínum, eins og Pétur hér!

Magnús þrumar að marki

Hér þrumar Magnús Jóhannsson knettinum
að marki og meðal áhorfenda skemmta sér yfir tilburðum manna þeir Jón
Kristmannsson, Guðbjörn Ingason, Kristmann Kristmannsson og Rúnar Þór.

Allir sáttir í lokin

Aðalskipuleggjendur mótsins að þessu sinni
voru þeir Guðmundur Ólafsson, Jóhann Torfason, Haraldur Leifsson og
Frímann Sturluson, en þeir nutu dyggrar aðstoðar Rúnars Þórs
Péturssonar við tæknilega útfærslu, auk þess sem fleiri lögðu hönd á
plóg. Á föstudagskvöldinu kom hópurinn saman í skíðaskálanum í Tungudal
og snæddi dýrindis málsverð sem borinn var fram af Margréti Ólafsdóttur
og fleirum úr hennar ranni. Þangað kom einnig Benedikt Sigurðsson sem
lék á gítar og dragspil svo fótafiðringur fór um hópinn sem dembdi sér
á dansgólfið í vals og ræl.

Prúðasti leikmaðurinn

Magni Pétursson, fyrir miðri mynd, hlaut verðlaun fyrir prúðasta leik,
en verðlaunin voru gefin af ættingjum Guðmundar Jóhannssonar til
minningar um Guðmund (Gummi Kauff eins og hann var stundum kallaður –
kenndur við Kaupfélagið sem faðir hans stýrði), en Guðmundur lék með
meistaraflokki ÍBÍ í kringum 1980 og lést langt fyrir aldur fram fyrir
um áratug. Með Magna á myndinni eru synir Guðmundar, sá eldri heitir
Jóhann og lék með Hlíðarvegspúkunum og sá yngri heitir Tryggvi.
Verðlaunin voru veitt í fyrsta sinn nú og var Magni vel að þeim kominn
enda annálað prúðmenni sem geymir þó öll brögð knattspyrnunnar í stórum
reynslusarpi sínum.

Sigurvegari sem fyrr

Pétur Sigurðsson, fyrirliði Dokkupúkanna,
tekur við verðlaunum liðs síns fyrir fyrsta sætið úr hendi Kristjáns
Kristjánssonar (Krissa Kitta Jónu Petólínu), en farandbikarinn var
gefinn af ættingjum Kristjáns Jónassonar knattspyrnufrömuðar á Ísafirði
til minningar um Kristján sem fórst í snjóflóðinu í Tungudal árið 1994.

Besti púkinn

Stefán Jóhann Stefánsson, leikmaður Hlíðarvegspúka
(bláliðar) tekur við Hafþórsbikarnum eftir að hafa verið valinn besti
púkinn á mótinu. Til vinstri er Geir Garðarsson, bróðursonur Hafþórs
Sigurgeirssonar, en ættingjar Hafþórs gáfu bikarinn til að heiðra
minningu Hafþórs sem fórst af slysförum á sjó skömmu eftir að hann tók
þátt í fyrsta púkamótinu árið 2005. Fyrir miðri mynd er svo Jóhann
Torfason, einn af aðalskipuleggjendum mótsins.

Sigurliðið

Efri röð frá vinstri: Þorsteinn Jóhannesson,
Guðmundur Ólafsson, Árni Hjaltason, Guðmundur Gíslason, Kristján
Arnarsson, Geir Garðarsson og Helgi F. Arnarson. Neðri röð frá vinstri:
Halldór Ólafsson, Hannes H. Haraldsson, Pétur Sigurðsson, Frímann A.
Sturluson og Höskuldur Bragason.

Pétur Geir heiðraður

Hér er Pétur Geir Helgason heiðraður af Haraldi Leifssyni fyrir sitt mikla framlag til ísfirskrar knattspyrnu í gegnum árin.


Rúnar Þór sá um tónlistina

Rúnar Þór sá um tónlistina fyrir matinn, undir fjöldasöng og lék einnig undir dansi ásamt félögum.

Síðara kvöldið var svo slegið upp mikilli veislu í Stjórnsýsluhúsinu
þar sem Halldór Jónsson var veislustjóri og hélt uppi miklu fjöri, en
Margrét Ólafs og félagar báru fram veisluhlaðborð af alkunnri snilld og
Rúnar Þór lék kvöldverðartónlist. Þá hlutu Dokkupúkarnir sín
sigurverðlaun, auk þess sem bikarar fyrir prúðmennsku og bestu tilþrif
voru veitt. Að þessu öllu loknu héldu svo helstu stuðboltarnir í
Krúsina þar sem Rúnar Þór og Örn Jónsson léku ásamt hljómsveit fyrir
dansi, en helstu áhugamenn um mat fóru í saltfiskveisluna miklu í
Edinborgarhúsinu.

Texti: Stefán Jóhann Stefánsson