Nei var
ekki svar.
-nokkrir
punktar af knattspyrnuhjónunum Hansínu og Kitta Jónasar
Það er kunnara en frá þurfi
að segja að stærstur hluti félagsstarfs á Íslandi er borið uppi af
sjálfboðaliðum. Gildir þá einu hvort félögin eiga rætur í
menningu, listum, stjórnmálum, björgunarmálum að ekki sé talað um
rekstur íþróttafélaga. Það að auki starfa fjölmörg
mannúðar- og líknarfélög sem eingöngu afla fjár til þess að
styðja við bakið á ýmsum þjóðþrifaverkefnum.
Eins og gengur er fólk misjafnlega virkt í félagsstarfi. Þeir eru án efa
ekki margir sem sigla í gegnum lífið án þess að ganga í neitt
félag. Fleiri taka um tíma þátt í slíku starfi og oft er það
tengt áhuga afkomendanna á því starfi. Sumir eru miklar félagsverur og
geta ekki hugsað sér annað en mikil afskipti af félagsmálum. Svo eru
það örfáir í hverju samfélagi sem eru bókstaflega potturinn og pannan
á mörgum sviðum félagslífs, oft nefndir félagsmálatröll. Einn og einn
verða með störfum sínum eins konar andlit eða samnefnari tiltekins
félagsstarfs.
Félagsmálatröllin
Saga Ísafjarðar hefur að geyma mörg
félagsmálatröll sem voru svo afkastamikil að félagsskapurinn og
maðurinn urðu eitt í hugum fólks. Knattspyrnuíþróttin hefur
verið svo heppin að eiga nokkra slíka. Þegar fótbolti var nefndur
á Ísafirði voru nöfn manna eins og Didda málara, Óla toll, Jenna Kristmanns
og Péturs Sigurðssonar áratugum saman nefnd í sömu anddrá.
Þegar nafn Kristjáns Jónassonar var nefnt
kom fótbolti þar einnig við sögu. Og þá var óhugsandi að nafn eiginkonu hans Hansínu
Einarsdóttur væri langt undan. Um áratuga skeið var þeirra líf mjög
bundið þessari skemmtilegu íþrótt. Ekki sem aðalstarf
heldur sem hugsjónastarf meðfram annasömu brauðstriti sem skilaði
fimm börnum til manns.
Þegar knattspyrnukappar síðustu
áratuga koma saman er ekki úr vegi að rifja í örfáum orðum störf
þeirra hjóna.
Uppruni
þeirra hjóna
Kristján Knútur Jónasson fæddist á Ísafirði 19.nóvember 1934
og bjó þar alla tíð og var neðribæjarpúki að upplagi. Hann var sonur Jónu Petólínu
Sigurðardóttur og Jónasar Guðjónssonar. Á sumrum og að loknu
gagnfræðaprófi stundaði Kristján almenn störf til sjós og lands uns
hann hóf nám í húsasmíði. Hann lauk sveinsprófi og síðar meistaraprófi
í þeirri iðn. Árið 1976 var hann ráðinn framkvæmdastjóri
Djúpbátsins hf. og gengdi því starfi til dauðadags.
Hansína Einarsdóttir fæddist á Suðureyri
við Súgandafjörð 13.nóvember 1940. Foreldrar hennar voru Jósíana
Magnúsdóttir og Hjörtur Jónsson. Hún var kjördóttir Ólafar Magnúsdóttur og
Einars Steindórssonar í Hnífsdal þar sem hún ólst upp. Hún stundaði
nám bæði í Hnífsdal og á Ísafirði. Um árabil starfaði hún með
föður sínum Einari hjá Hraðfrystihúsinu hf. í Hnífsdal.
Hansína og Kristján gengu í hjónaband fyrir
réttri hálfri öld eða þann 6.júní 1959. Þau eignuðust fimm
börn, Einar Val, Kristinn Þóri, Steinar Örn, Ólöfu Jónu og Guðmund
Annas. Þau hjón reistu hús að Engjavegi 29 sem þau fluttu í um
miðjan sjöunda áratuginn og bjuggu þar síðan.
Keppnisferillinn
Kristján fékk snemma mikinn áhuga á
íþróttum og æfði og keppti í öllum aldursflokkum í knattspyrnu undir
merkjum Vestra og um tíma lék hann einnig með meistaraflokksliði ÍBÍ. Kristján
spilaði oftast á vinstri vængnum og var fljótur og lunkinn leikmaður. Fylginn
sér og náði að skora mörk með ýtni sinni og poti. Hann var
mjög kappsamur og gaf allt sitt í leikinn. Stundum var kappið um of og
það lýsti sem best í tæklingum hans. Hann fórnaði sér án
margra undantekninga. Því fylgdi að stundum varð hann of seinn og
því fylgdu meiðsli. Stundum eru meiðslagjarnir menn kallaðir
seinheppnir en skýringuna hvað Kristján varðar er að leita í
kappseminni. Hann glímdi því oft við erfið meiðsl og vera
kann að þau hafi stytt nokkuð feril hans sem knattspyrnumanns.
Einnig var sjómennskan auðvitað ekki óskastarf hvað árangur í
íþróttum varðar.
Kristján var frá upphafi afar félagslyndur
maður og fór fljótt að starfa að félagsmálum. Hann varð
félagshyggjumaður og mátti ekkert aumt sjá. Eflaust hefur bakgrunnur
Kristjáns mótað þessar lífsskoðanir hans. Á bernskuheimili hans
voru ekki mikil efni frekar en á fjölmörgum öðrum
alþýðuheimilum á þeim tíma auk þess sem móðir
hans, Jóna Petólína, var fötluð á fæti sem ekki hefur auðveldað
lífsbaráttuna þó hún væri annálaður dugnaðarforkur.
Félagmálamaðurinn
Fljótlega eftir að knattspyrnuferlinum lauk
hóf Kristján afskipti af félagsmálum knattspyrnuíþróttarinnar. Fyrst sat
hann í stjórn Knattspyrnuráðs Ísafjarðar í formennskutíð
Friðriks Bjarnasonar (Didda málara) og undir lok sjöunda áratugs
síðustu aldar var Kristján formaður ráðsins um tíma. Það
var fleira sem stjórn Knattspyrnuráðs hafði um að hugsa en að
halda umfangsmiklum rekstri gangandi. Á sjöunda áratugnum hafði svæði
knattspyrnuvallarins við Grund verið tekið undir húsbyggingar. Í
staðinn hófst uppbygging íþróttasvæðisins á Torfnesi og var
malarvöllurinn þar tekinn í notkun árið 1962. Í raun má segja að
þegar sá völlur var tekinn í notkun hafi aðstaðan á Torfnesi
verið verri en hún var við Grund því ekkert var vallarhúsið á
Torfnesi. Þurftu keppendur að klæðast í búningsklefum í
Sundhöllinni og aka þaðan eða hlaupa á Torfnes.
Kristján skipaði sér því snemma í hóp
þeirra sem börðust fyrir frekari framkvæmdum á Torfnesi og var
þá sérstaklega nefndur grasvöllur. Eftir mikla baráttu tókst að hefja
framkvæmdir við nýjan grasvöll sumarið 1979. Kristján og félagar
hans skipulögðu mikla sjálfboðaliðsvinnu, meðal annars við
tyrfingu vallarins og skipti það sköpum við framkvæmdina.
Kristján var formaður knattspyrnuráðs þegar völlurinn var tekinn
formlega í notkun með leik ÍBÍ og Þróttar frá Neskaupstað þann
19.júlí 1980. Leiknum lauk að sjálfsögðu með sigri heimamanna sem
skoruðu þrjú mörk en aðkomumenn ekkert.
Dýrfirðingurinn Andrés Kristjánsson varð fyrstur liðsmanna
ÍBÍ til þess að skora á vellinum. Þá hófst á svipuðum tíma
bygging vallarhúss á Torfnesi en sú bygging var tekin í notkun að hluta
sumarið 1982.
Þegar Kristján lét af formennsku í stjórn
KRÍ síðla árs 1980 hafði hann safnað saman í stjórnina
samstæðum hópi manna sem fengu það verkefni að freista
þess að koma liði ÍBÍ í efstu deild. Löngum hafði lið ÍBÍ spilað í næst
efstu deild frá því að Kristján og félagar hans spiluðu í efstu
deild árið 1962. Aðeins einskær óheppni varð til þess að
liðið komst ekki upp haustið 1978 en haustið 1981 tókst liðinu
að komast í hóp þeirra bestu og þar lék liðið í tvö ár.
Árið 1980 var Kristján kosinn til setu í
stjórn KSÍ fyrir hönd síns landshluta þar sem hann sat til æviloka.
Þrátt fyrir að Kristján sæti ekki í
stjórn KRÍ eftir 1980 var hann þó virkur þáttakandi í
knattspyrnustarfinu með einum eða öðrum hætti. Þegar starf
KRÍ komst í þrot undir lok níunda áratugarins var Kristján ásamt fleiri
góðum mönnum kallaður til starfa til þess að ganga frá
skuldum ráðsins sem voru miklar. Með því starfi tókst að
lágmarka tjón annarra íþróttagreina því Íþróttabandalag Ísfirðinga
var ábyrgt fyrir skuldum sérráðanna. Var sú uppgjörsvinna mjög erfið, tímafrek
og mætti á stundum skilningsleysi fulltrúa annarra íþróttagreina.
Stjórnmálamaðurinn
Það er oft svo að þeir sem
af alvöru gefa sig að félagsmálum verða eftirsóttir til annarra
félagsstarfa. Svo var einnig um Kristján. Fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 1978
gaf hann kost á sér til setu á framboðslista
Alþýðuflokksins.. Hann náði sæti í bæjarstjórn þar
sem hann sat í tólf ár eða þar til hann ákvað að draga sig í
hlé fyrir kosningarnar 1990. Hann var kjörinn forseti bæjarstjórnar að
loknum kosningum árið 1982 og gegndi því embætti samfellt í tvö
kjörtímabil eða til ársins 1990.
Sem stjórnmálamanni var Kristjáni ekkert
óviðkomandi. Hann beitti sér ötullega í flestum málaflokkum þó atvinnumálin
og íþróttamálin hefðu ávallt verið ofarlega í hans huga. Í
bæjarstjórn barðist hann ötullega fyrir byggingu nýs
íþróttahúss á Torfnesi. Það varð mikill slagur við
ríkisvaldið sem greiða skyldi hluta byggingarkostnaðar. Í upphafi
stóð slagurinn um stærð hússins en ríkið vildi einungis byggja hús
sem nægði til kennslu. Bæjarstjórn Ísafjarðar vildi hins vegar að
byggingin yrði af „ólympískri stærð“ eins og Kristján nefndi oft.
Að lokum, ekki síst fyrir þrautseigju Kristjáns, tókust samningar
við fjármálaráðherra sem þá var Jón Baldvin Hannibalsson. Jón
Baldvin lýsti glímu þeirra Kristjáns svo að hann hafi smitast
af þrautseigju Kristjáns og ýtni. Hann hafi ekki tekið nei
fyrir svar. Þegar að lokum byggingarframkvæmda var komið
þurfti að velja gólfefni á húsið. Um nokkurra ára skeið
höfðu gólf íþróttahúsa hérlendis verið lögð gólfdúk en ekki
parketi. Gólfdúkurinn þótti hagkvæmari í innkaupum og auk þess
ódýrari í viðhaldi. Sem betur fer varð sjónarmið Kristjáns
og félaga ofaná. Á gólfið var lagt parket af bestu gerð öllum notendum
hússins til mikillar ánægju. Það gólfefni hefur meðal annars
tryggt að húsið hefur komið að notum í margt fleira við
íþróttaæfingar og keppni. Einnig var húsinu breytt á byggingarstigi og
tryggt að fólksbílar og vörulyftarar gætu keyrt inní húsið og
þannig auðveldað að setja upp stórar vörusýningar.
Þá var einn hluti hússins sérstaklega hljóðeinangraður til
tónleikahalds. Þá var í fyrsta skipti í íþróttahúsi hérlendis merktur
sérstaklega völlur til keppni í boccia þannig að hugsað var fyrir
þörfum sem flestra íþróttamanna. Ekki þarf hér að rekja
þá byltingu sem húsið olli í iðkun íþrótta og árangur í
keppnisíþróttum lét ekki á sér standa. Nægir þar að nefna
góðan árangur körfuknattleiksmanna. Framkvæmdir við byggingu hússins hófust
í mars 1987 og það var formlega tekið í notkun 19.september 1994.
Umferðarmiðstöðin
Engjavegur 29
Þó knattspyrnan væri uppáhaldsíþrótt
Kristjáns hafði hann brennandi áhuga á framgangi annarra
íþróttagreina. Ísfirðingar hafa löngum verið fremstir í flokki
skíðamanna á Íslandi og því mikið vinna að halda um starfsemi
þeirrar íþróttagreinar í bænum auk þess sem
skíðasvæðið góða á Seljalandsdal var að stærstum hluta
byggt upp með sjálfboðaliðsvinnu. Kristján tók þátt í
þeirri vinnu eins og margir aðrir íþróttaáhugamenn. Um tíma sat
hann svo í stjórn Skíðaráðs Ísafjarðar. Þó ekki væri mikill
tími aflögu í önnur áhugamál tók Kristján þátt í starfi Lionsklúbbs
Ísafjarðar og veiðiskapur var honum einnig að skapi og fór um árabil
í veiðiferðir með félögum sínum.
Maður sem sinnir jafn tímafrekum aukastörfum
og Kristján gerði hefur jafnan ekki tök á slíku nema með góðu
samkomulagi við maka sinn og fjölskyldu. Þar kom Hansína til
skjalanna. Svo samstíga voru þau hjónin í störfum hans að um áratuga
skeið var talað um þau sem eitt þegar að þeim
störfum kom. Börn þeirra þekktu ekki annað en mikinn eril á
heimilinu hvort heldur var vegna aðalstarfa þeirra hjóna eða
aukastarfa. Þau vissu því ekki í raun „venjulegt“ heimilislíf fyrr
en þau sjálf stofnuðu heimili. Það sem má flokkast undir
það „óvenjulegt“ í þessu sambandi var að smám saman
varð heimilið að nokkurs konar umferðamiðstöð
íþróttafólks. Ekki var óalgengt að íþróttafólk sem kom til
keppni á Ísafirði gisti á heimilinu að ekki sé talað um allt
það fólk sem kíkti við í mat eða kaffi eða bara til
þess að spjalla fyrir eða eftir leik eða mót. Allir voru
velkomnir á Engjaveginn.
Stundum gat nú börnunum þótt nóg um.
Sérstaklega ef í gangi voru söluherferðir. Þá endaði stundum
óseld vara á Engjaveginum og kom það þá oft í hlut
heimilisfólks að selja afganginn. Ekki var óalgengt að húsið
hálffylltist af afskornum blómum þegar árlega blómasala knattspyrnumanna
um Hvítasunnu stóð yfir.Stundum vissu börnin varla hvort verið var
að selja fyrir skíðamenn, knattspyrnumenn, Lionsmenn eða
kvenfélagið Hvöt í Hnífsdal, þar sem Hansína var einn af
burðarásum lengi.
Foreldrar
og íþróttir
Að sjálfsögðu smituðust börnin af
íþróttaáhuga foreldranna því þótt ekki margir muni
það í dag þá stundaði Hansína handknattleik á yngri árum og
keppti í þeirri íþróttagrein. Ekki var þó beinn
þrýstingur á börnin að stunda íþróttir en þau
hrifust með. Þegar komið var í keppni studdu foreldrarnir
þétt við bakið á börnum sínum. Kristján sýndi oftast
talsverða stillingu þegar hann fylgdist með knattspyrnuleikjum.
Hansína lét oftast meira í sér heyra og var því fyrirferðarmeiri
við völlinn þó aldrei yrði það til vansa. Kristinn
sonur þeirra var um tíma keppnismaður bæði í knattspyrnu og á
skíðum. Hann sagði föður sinn hafa sýnt mikla útsjónarsemi í
hvatningu sinni þegar hann keppti í skíðagöngu. Hans helsti
keppinautur á þeim árum var nágranni þeirra af Seljalandsveginum
Haukur Oddsson. Kristinn segir föður sinn hafa haft þann háttinn á
að stilla sér þannig upp við brautina að hann gæti
hlaupið spöl á eftir sér tvisvar í hverjum hring. Þar sem göngumenn
eru ræstir í brautina á misjöfnum tíma skipti miklu máli að fá nákvæmar
upplýsingar um millitíma keppinautanna. Kristinn segir það
aldrei hafa brugðist að faðir sinn hefði kallað á eftir sér
„samkvæmt mínum tíma er hann alveg að ná þér“. Stundum var
þetta hvít lygi. Aðal málið var að með þessu veitti
kall drengnum hæfilega hvatningu.
Formlegheitin
Það verður seint sagt um Kristján
að hann hafi verið maður formlegheitanna þrátt fyrir að
hafa gegnt starfi forseta bæjarstjórnar um átta ára skeið en það
starf verður að teljast starf sem krefst nokkurra formlegheita.
Sérstaklega á það við um fundarstjórn. Kristján hefur án efa
talið of mikil formlegheit seinka framgangi góðra mála. Betra væri
að ganga hratt til verks þó það væri á kostnað
nákvæmninnar. Fræg er sagn af viðskiptum hans og Einars Garðars
Hjaltasonar á fundi bæjarstjórnar. Umræðan hafði lengst meira en
Kristjáni líkaði vegna ágreinings. Hóf hann þá að kynna Einar
Garðar sem Einar Hjaltason. Því framferði forseta mótmælti Einar
Garðar og taldi styttingu nafns síns vera óvirðingu við sig.
Kristján afgreiddi málið á þann veg að þar sem umræðan
hefði dregist á langinn hefði hann ákveðið að nota aðeins
annað nafnið til þess að stytta fundinn. Lauk þar deilum
þeirra í það skiptið. Einar Garðar sagði síðar
að sem bæjarfulltrúi hefði Kristján verið mikill hugsjónamaður,
oft á tíðum fljóthuga og framkvæmdasamur. Hann hafi ekki hikað við
að nýta sér náðargáfu sína, hinn einlæga húmor við nánast
öll tækifæri. Hugsjónir hans hafi oft á tíðum náð út fyrir skilning
þeirra sem störfuðu með honum í bæjarstjórn. Það sé
þannig með framkvæmdamenn að þeir eigi oft erfitt með
að ná eyrum fólks. Baráttuhugur Kristjáns og eldmóður hafi hins vegar
verið bráðsmitandi og það hafi oft fleytt mönnum yfir
erfiðustu hjallana. Þeir er þekktu þau hjón vita þó
að einn var Kristján ekki neitt svo vel studdi Hansína við bakið á
honum í því sem hann tók fyrir hendur.
Hjálpfýsi
og einlægni
Einlægni Kristjáns og hjálpfýsi komu sér
vel í öllum störfum hans. Hann átti afar erfitt með að segja nei. Á
hann hlóðust því oft verkefni sem leystust kannski ekki öll fljótt en
flest komust þau á leiðarenda og það var fyrir öllu. Jón
Baldvin gaf góðri sögu vængi af einum fundi þeirra þá er hann
var utanríkisráðherra. Kristján kom í ráðuneytið til þess
að ræða hagsmunamál síns bæjarfélags. Ráðherrann var seinn í hús og
því beið Kristján á skrifstofu ráðherra. Fékk hann að
nýta tímann til þess að sinna ýmsum öðrum málum í
síma. Um síðir mætti ráðherra til fundarins. Að loknum
viðræðum þeirra Kristjáns kvöddust þeir. Á leiðinni út
snéri Kristján sér við í gættinni og sagðist hafa gleymt að segja
ráðherra að hann hefði í hans fjarveru svarað tveimur áríðandi
símtölum til ráðherra og afgreitt málin. Annað var útflutningsleyfi
fyrir saltfisk af Suðurnesjum sem ekki þoldi bið og hitt hafi
verið meðmælabréf fyrir dreng vestan af fjörðum sem var á
leiðinni í nám vestur um haf. Þetta gerði Kristján í einlægni
sinni og vissi sem var að Jón Baldvin hefði væntanlega gert
það sama. Engar málalengingar.
Á löngum ferli Kristjáns í stjórn KSÍ kynntust
þau hjónin fjölda forystumanna í knattspyrnuíþróttinni. Auk setu á
stjórnar- og nefndafundum hjá KSÍ fór Kristján fjölmargar ferðir með
landsliðum Íslands í keppnisferðir erlendis. Eggert Magússon
fyrrverandi formaður KSÍ segir Kristján hafa verið góðan
stjórnarmann, tillögu- og úrræðagóðan, með mjög eindregnar
skoðanir á framfaramálum í knattspyrnunni. Hann hafi notið sín best í
rökræðum því þar hafi komið í ljós hversu sjóaður hann
var í heimi félagsmálanna.
Nei er
ekki svar
Sumir málafylgjumenn geta með einlægni sinni
verið afar sannfærandi. Þannig voru þau hjón Hansína og
Kristján. Þau gátu betur en margir aðrir fengið menn til fylgis
við skoðanir sínar eða ráðagerðir. Sumir kalla
það ýtni, aðrir ákveðni og einhverjir kannski frekju.
Trúlega var þetta sambland af einhverju öllu þessu í þeirra
tilfelli. Blandan kannski misjöfn eftir aðstæðum.
Stutt samtal getur stundum breytt miklu.
Þannig var það í tilfelli þess er hér skrifar þegar
Kristján kom að máli og falaðist eftir liðsinni við lítið
og afmarkað verkefni fyrir knattspyrnuhreyfinguna. Fyrr en varði voru
nokkur ár liðin. Ár sem ráðstafað til góðra verka.
Það voru frítímalausu árin. Ógleymanleg ár. Maður sagði jú
hvorki nei við Kristján eða Hansínu.
Sem kunnugt er lést Kristján Knútur þann
5.apríl 1994 af völdum meiðsla er hann hlaut þegar snjóflóð féll
yfir Seljalandsdal og niður í Tungudal þar sem sumarbústaður
þeirra hjóna stóð. Hansína lést þann 11.ágúst 2007 eftir erfið
veikindi.
Þegar knattspyrnumenn ísfirskir ræða
málin kemur fljótt að sögu þeirra hjóna. Svo samofin voru þau
og eru enn sögu knattspyrnunnar á Ísafirði.
-Halldór Jónsson-
Grein þessi er samin eftir viðtöl við nokkra
samtíðarmenn þeirra hjóna og einnig var leitað í smiðju
blaða og tímarita frá fyrri árum. Alls ekki má líta á greinarkorn
þetta sem nákvæmt sagnfræðilegt yfirlit.