Pétur Sigurðsson, formaður Vestra í 23 ár: „Þetta byrjaði með úttroðnum tuskubolta í Mánagötunni“ Á sjöunda áratugnum, þegar skrásetjari þessa viðtals var að alast upp á Ísafirði, sá hann viðmælandann stundum ganga snaggaralega um göturnar í bænum. Í minningunni hallaði hann örlítið fram á göngunni og eilítið undir flatt. Göngulagið var fjaðurmagnað, minnti kannski örlítið á mann í meðalhröðum polka, og þegar hann hóf upp raust sína var röddin hljómmikil og hann virtist ekkert tvínóna við hlutina eða eyða orðum í of mikinn óþarfa. Í augum okkar neðribæjarpúkanna var hann aðalforinginn í Vestra.
“Það er nú eitthvað annað að skutla sér eftir knettinum á þessu dúnmjúka grasi en á hrjúfum malarvellinum við Grund! Ljósm.: bb.is”
Pétur Sigurðsson heitir maðurinn og hann var formaður Vestra upp úr miðri síðustu öld. Pétur gekk snemma til liðs við Vestra. Hann lék með yngri flokkum félagsins í knattspyrnu, en æfði fleiri greinar eins og hnefaleika, og fyrir tvítugt tók hann sæti í stjórn Vestra. Hann varð formaður félagsins, varla orðinn 23 ára, og er sagður hafa verið yngsti formaður í íþróttafélagi á Íslandi – að minnsta kosti á sínum tíma.
– Pétur, hvernig manst þú fyrst eftir þessu íþróttastússi? „Ja, það virtust nánast allir vera með tuðruna á tánum á Eyrinni. Við vorum með reimaðar tuðrur þarna á Mánagötunni og á götunum í kring. Svo stofnuðum við félag í götunni sem hét Geysir. Knötturinn var nú stundum ekki betur farinn en það að við urðum oft að troða tuskum í hann og reima fyrir. Við þetta varð hann ansi harður. Þá var félagið kallað tuskuboltafélagið Geysir! Annars voru boltarnir reimaðir lengi eftir þetta – og ekki hættulaust að skalla boltann. Búnaðurinn var líka annar þá en nú. Skórnir stundum fullstórir og fyrir kom að það skásta sem menn höfðu til fótanna voru skíðagönguskór!“
– Þannig að þú gengur ekki strax í Vestra? „Nei, við strákarnir stofnuðum okkar eigin félög á okkar svæðum. Okkur fannst reyndar starfið hálfdauft í þessum stærri félögum, Herði og Vestra, og ætluðum að sameina strákafélögin í Króknum og neðar á Eyrinni og ganga í ÍBÍ. Þetta hefur verið á stríðsárunum. Þessi félagsstofnun gekk reyndar ekki eftir, en leiddi til þess að ég fór að skipta mér af félagsmálunum í Vestra.“
“Pétur bókstaflega svífur um í rammanum á fyrsta mótinu árið 2005. Ljósm.: bb.is” – Hverjir voru eftirminnilegastir í fótboltanum þegar þú varst að alast upp? „Halldór Sveinbjarnarson (f. 1919) var með þeim snjallari á þessum tíma og líklega með þeim betri á landinu. Aðrir sem voru mjög eftirminnilegur voru Magnús á Heklunni, Guðmundur Hermannsson, kúluvarpari og síðar lögregluþjónn í Reykjavík, en hann var í markinu hjá Herði. Þá var Guðjón Bjarnason markmaður hjá Vestra um tíma, en hann varð síðar bakari í Bolungarvík. Það má nefna fleiri. Þar á meðal Níels Guðmundsson, málara, Friðrik Vilhjálmsson, Guðmund Sigurðsson, (bróður Péturs), Guðmund Ingibjartar, Högna Þórðarson, Loft Magnússon, Jónas Magnússon og Högni í Odda.“ – Hvernig kom félagsbúningur Vestra til? „Fyrirmynd að búningnum er líklega sótt til liðs í Skotlandi eða jafnvel Þýskalandi. Menn hafa komist yfir treyju erlendis. Kjartan Ólafsson, kaupmaður, sem var formaður Vestra um tíma lét búa til merki fyrir félagið í Þýskalandi. Finnur Magnússon, kaupmaður, teiknaði merki í kringum 1930. Hann var flinkur teiknari þótt hann flíkaði því ekkert sérstaklega. Í rígnum á milli félaganna voru menn að stríða okkur á því að merkið væri eins og flattur saltfiskur, – eins og það ætti að vera einhver minnkun! En menn létu þetta hafa áhrif á sig og breyttu merkinu dálítið í átt að ávölum línum. Finnur var nú ekki alveg sáttur við það sem skiljanlegt er þar sem hann var höfundur merkisins.“ Á þessum árum voru aðalfélögin tvö. Knattspyrnufélagið Hörður var stofnað árið 1919 eftir því sem næst verður komist, og Knattspyrnufélagið Vestri árið 1926. Einnig var um tíma starfandi Fótboltafélag Ísafjarðar. Þessi félög höfðu keppt um veglegan grip, sem var líkan af knattspyrnuvelli og var úr silfri, en honum fylgdu 22 leikmenn. Einar Oddur Kristjánsson, gullsmiður, sem var líklega fyrsti formaður Vestra, smíðaði gripinn. Hörður var sagður öflugri framan af í íþróttunum, en upp úr 1930 komu sterkir árgangar inn í Vestra og í kringum 1932 var Vestri Vestfjarðameistari í öllum flokkum knattspyrnunnar. Það var um það leyti sem Pétur Sigurðsson var að fæðast ásamt öðrum piltum sem áttu eftir að koma Ísafirði á knattspyrnukortið um 30 árum síðar þegar lið ÍBÍ komst í efstu deild.
Í stjórn Vestra í nær þrjá áratugi – og formaður í 23 ár – Pétur, hvenær ferðu svo í stjórn Vestra? Og hversu lengi varstu formaður? „Ætli ég hafi ekki verið 17 eða 18 ára þegar ég fer í stjórnina. Þá var Finnur Finnsson, kennari, búinn að vera formaður Vestra í nokkur ár, en Friðrik Bjarnason, málari var einnig í stjórninni og tók svo við formennskunni af Finni. Þetta hefur verið í kringum 1948. Ég er svo með þeim í stjórninni til 1954 þegar ég tek við formennsku í Vestra og er formaður til 1977 þegar Tryggvi Sigtryggsson tekur við. En það er nú rétt að taka fram að þótt mikið hvíli á formanninum þá gerir hann ekki allt einn og rétt að minna á að fjölmargir aðrir stjórnarmenn, ásamt ýmsum öðrum, hafa í gegnum tíðina lagt hönd á plóginn.“
“Pétur Sigurðsson á fullu í markinu og hefur greinilega stjórn á öllu. Rúnar Þór greinilega skelfingu lostinn yfir færi sem fór forgörðum, en Pétur Sigurgeir Sigurðsson fylgist sposkur með. Ljósm.: bb.is” Pétur var því formaður í 23 ár og var reyndar á 23. ári þegar hann tekur við formennskunni, en því hefur verið haldið fram að hann hafi verið yngsti formaður íþróttafélags á landinu. Það hefur verið í nægu að snúast, því Pétur stundaði jafnframt nám og svo vinnu, auk þess að stofna fjölskyldu og stunda íþróttir sjálfur. Hann var á sjó, stundaði vélstjóranám og vann hjá Rafmagnsveitum ríkisins. En félagsmálin toguðu í hann, fyrst í kringum íþróttirnar.
– Hvernig var nú umhorfs þegar þú ert að taka við formennsku í Vestra? Hver voru fyrstu verk formannsins? „Við byrjuðum á því að leggja áherslu á yngri flokkana til að hafa eitthvað til að byggja á. Það var talsverð samkeppni á milli félaganna og mikill fjöldi þátttakenda. Við náðum um tíma að manna a-, b- og c-lið í báðum félögum í 5. flokki. Og Vestri varð heldur sterkari fjölmennari í fótboltanum um og upp úr 1960.“
Skrásetjari getur tekið undir þetta. Hann var nefnilega í Herði og gleymir ekki ósigrunum gegn Vestra í 5. flokki. En þá fór Hörður aftur að ná yfirtökunum ef minnið svíkur ekki. En líklega hefur Pétur ásamt öðrum lagt grunninn að öðru stórveldistímabilinu í ísfirskri knattspyrnu, þ.e. þegar ÍBÍ komst aftur upp í efstu deild í kringum 1980.
Synirnir sóttir aftur og settir á sinn bás! – En aðeins nánar um stöðuna, Pétur, þegar þú ert að taka við, hvernig voru átökin á milli félaganna? Var mikil harka í gangi? „Það var alltaf reynt að ná í bestu leikmennina, og því dálítil átök og rígur, en annars gekk þetta nánast í erfðir. Þetta var fólk úr sömu hverfum, götum og sömu fjölskyldum. Sumir sviku reyndar lit, en það voru nánast drottinssvik ef menn fóru úr sínu félagi. Pabbarnir tóku þá sumir í taumana og sóttu syni sína ef þeir villtust í vitlaust félag. En auðvitað var tekist á við Hörð í þessu, þótt það hafi yfirleitt verið í mesta bróðerni. Það voru nokkrir formenn í Herði eftir að ég tók við og einstaka maður dálítið harður í horn að taka. Þetta voru menn á borð við Albert Karl Sanders, Högna Þórðarson, Guðmund Benediktsson og Jens Kristmannsson. Það var stundum umræða um það hvort menn gætu stundað mismunandi greinar í ólíkum félögum, svo sem skíði hjá Skíðafélagi Ísafjarðar og knattspyrnu eða annað hjá Herði eða Vestra. Um þetta voru skiptar skoðanir, því sumum fannst að menn væru ekki heilir í sinni félagsafstöðu ef þeir væru í mörgum íþróttafélögum. Menn voru eðlilega að verja sín vígi. En þó gekk þetta ágætlega hjá sumum, eins og Einari Val Kristjánssyni, kennara, sem var á skíðum í Skíðafélaginu, en í fótbolta hjá Vestra. Samvinnan við formennina gekk þó yfirleitt vel og sérstaklega við Jens Kristmannsson sem var lengi vel formaður Harðar þegar ég var í forystu fyrir Vestra. Það var alltaf samvinna milli félaganna í elstu flokkunum og umræða um frekari samvinnu, en mér fannst þó alltaf hætta á að iðkendum fækkaði ef keppnisliðum fækkaði.“
– En svo fóru menn að sameina kraftana í auknum mæli? „Já, í íþróttum vilja menn skiljanlega ná árangi. Að vinna leiki. Þess vegna var valið úrvalslið Vestra og Harðar til að leika gegn liðum að sunnan eða úr öðrum byggðarlögum. Íþróttabandalag Ísafjarðar kemur snemma til sögunnar, ekkert síður vegna annarra íþróttagreina sem vildu standa sameinaðar gegn keppinautum utan Ísafjarðar. Einn helsti hvatamaður að sameiningu liðanna á Ísafirði var Albert Karl Sanders. Við vildum auðvitað senda okkar sterkasta lið úr bænum til að keppa við lið annarra sveitarfélaga. Fyrsta samstarf þessara liða var reyndar þegar við skipuðum úrvalslið félaganna til að leika við áhafnir á dönskum herskipum sem komu til hafnar. Fyrsti raunverulegi árangurinn sem sameinað lið frá Ísafirði náði var á fimmta áratugnum þegar við urðum Íslandsmeistarar í 1. flokki karla. Þá hefur það stundum farið í taugarnar á mér að margir halda að þetta sé lið frá Herði, af því að myndin af þeim er í Harðarbúningunum, en þetta var sameiginlegt lið Harðar og Vestra.“
Lið frá Ísafirði byrjuðu snemma að taka þátt í Íslandsmótum í 1. deild og 2. deild. Keppnirnar og flokkarnir báru reyndar önnur nöfn þá en í dag – og ekki voru komnir neinir svokallaðir kostunaraðilar til þess að gefa keppnum nafn. Þetta samstarf félaganna leiddi smám saman til þess að tekið var upp formlegra starf og knattspyrnuráð Ísafjarðar var stofnað, en Friðrik Bjarnason, málarameistari, var fyrsti formaður knattspyrnuráðsins. Árangurinn varð oft ágætur. Lið lentu í úrslitum um sæti í efstu deild og það sæti náðist upp úr 1960.
Nr 2 “Pétur fær afhenta heiðursfélagatreyju á mótinu árið 2005. Ljósm.: bb.is” Engin vettlingatök í markinu! – En þú varst ekki bara í félagsmálunum, því þú stundaðir íþróttirnar sjálfur, og það jafnvel fleiri en eina grein? „Ég var náttúrulega í fótboltanum, í markinu, alveg upp í meistaraflokk. Ég spilaði í marki strax í 3. flokki hjá Vestra og endaði svo í ÍBÍ í meistaraflokki. Þá var nær eingöngu æft og keppt á malarvöllum og maður varð því oft hruflaður eftir leiki þótt maður léki í síðbuxum og með hnéhlífar. Maður var ekki með hanska í þá daga. Við lékum til úrslita um sæti í efstu deild við lið frá Keflavík, Akranesi og Hafnarfirði. Svo fórum við í Norðurlandaferð þegar Jens Sumarliðason þjálfaði okkur. Kepptum meðal annars gegn Tönsberg Törnsförening sem var í norsku meistaradeildinni. Það var árið 1957.“ Skrásetjari heyrði í Jens Sumarliðasyni af þessu tilefni, en hann þjálfaði lið Ísafjarðar á árunum 1956 og 1957. Á þessum árum léku menn oft til úrslita um sæti í efstu deild. Eitt sinn var ekið suður í rútu og voru menn lítt sofnir eftir þá ferð sem sjálfsagt hefur tekið lengri tíma í þá daga en nú. Leikið var við Keflavík í Reykjavík og lauk leiknum með jafntefli. Suðurnesjamenn voru fyrri til að skora en okkar menn jöfnuðu undir lokin. Því varð að leika annan leik. Ísfirðingar vildu eðlilega leika fyrir vestan, en KSÍ setti leikinn á fyrir sunnan. Ísfirðingar neituðu að fara suður og var því málið dómtekið hjá KSÍ og Keflvíkingum dæmdur sigur. Það er því ekkert nýtt að leikir séu útkljáðir í dómsölum. Fararstjóri í ferðinni til Noregs var að líkindum Haraldur Steinþórsson, síðar framkvæmdastjóri BSRB. Meðal leikmanna í förinni munu hafa verið Björn Helgason, Albert Karl Sanders, Björn Charlesson, Gunnar Hólm Sumarliðason, Pétur Sigurðsson, Einar Þorsteinsson, Kristján Jónasson, Alli Ingibjartar, Bragi Magg og fleiri.
Þjálfarar af ýmsum gráðum Þjálfarar voru ýmsir áhugasamir menn sem kunnu náttúrulega misjafnlega mikið fyrir sér. Pétur segir að stundum hafi sjálfsagt ekki verið mikið vit í þjálfuninni. Þess vegna fóru menn fljótlega að leita fanga þar sem reynsla eða þekking var betri og í nokkur ár fengu Ísfirðingar þjálfara í gegnum Íþróttasamband Íslands, sem voru í bænum í nokkra mánuði og þjálfuðu alla flokka. Það voru ýmsir þjálfarar fengnir að sunnan til að taka knattspyrnumenn frá Ísafirði í kennslu. Meðal þeirra voru Ellert Sölvason, öðru nafni Lolli í Val, sem þjálfaði ýmis lið, m.a. lið ÍR á stríðsárunum, en í því liði voru margir ungir menn frá Ísafirði sem sóttu sér iðnmenntun í Reykjavík. Meðal þeirra var Guðmundur L. Þ. Guðmundsson, faðir Guðmundar Guðmundssonar, fyrrverandi landsliðsþjálfara í handbolta. Lolli í Val sá um þjálfunina í eitthvert sinn þegar ÍBÍ var í umspili um sæti í efstu deild. Aðrir þjálfarar að sunnan voru m.a. Axel Andrésson sem kom vestur á vegum ÍSÍ og kenndi aðallega ungu fólki undirstöðuatriðin.
– En hvernig var þetta, Pétur. Það voru fleiri íþróttagreinar stundaðar en knattspyrna. Þú varst ekki bara í boltanum? „Við æfðum hnefaleika í Vestra, en Hörður æfði glímu. Guðmundur bróðir minn var meðal þeirra sem voru framarlega í hnefaleikunum, en það var keppt reglulega í þeim. Þá var náttúrulega æft og keppt á skíðum. Handbolti var líka stundaður, einkum í kvennaflokkum. Og svo var öflugt starf í sundi. Þar var keppt á milli Harðar og Vestra. Helstu sundkennarar um tíma voru Gísli Kristjánsson, Sundhallarstjóri, og María Gunnarsdóttir, kennari. Vestri varð síðan mjög öflugur í sundinu, og er reyndar enn, en Fylkir Ágústsson varð á þessum árum Íslandsmeistari, auk þess sem margir unglingar úr Vestra voru fremstir í sinni röð á sínum tíma, s.s. Margrét Óskarsdóttir, Einar Einarsson, Tryggvi Tryggvason og Kolbrún Leifsdóttir.“
Fingralangur Parísarbúi veinar undan vestfirskum verkalýðsforingja Þegar minnst er á hnefaleikana kemur upp í hugann saga sem skrásetjari heyrði af ferð Péturs til Parísar fyrir margt löngu. Þá var hann staddur í neðanjarðarlestakerfi þeirra Parísarbúa. Vasaþjófur vindur sér þá að Pétri og grípur seðlaveski hans föstum tökum. Ósjálfsráð viðbrögð Péturs, kannski ættuð úr boxinu, gerðu það að verkum að þjófurinn missti tökin á veskinu og greip emjandi um magann. Honum varð því ekki kápan úr því klæðinu – og hefur líklega ekki áttað sig á því að verkalýðsforingjar að vestan standa fast á sínu!
Það hefur ýmislegt breyst á þeim árum sem liðin eru frá því að Pétur hóf afskipti af íþróttalífinu. Tímarnir voru þó vel nýttir í gamla íþróttahúsinu fyrir ýmsar íþróttagreinar, s.s knattspyrnu, handknattleik og fleira. Körfuboltinn kom seinna, og segir Pétur að menn hafi nú í fyrstu ekkert tekið því of vel að fá samkeppnina frá körfunni, þótt þau viðbrögð hafi auðvitað verið á misskilningi byggð. Hörður og Vestri voru þó ekki með körfu á sínum snærum heldur var stofnað sérstakt félag í kringum hana. Svo voru leigðir litlir salir í tengslum við félagsstarfið, skemmtanir og fjáraflanir. Sýndar voru kvikmyndir með 8 millimetra sýningarvélum og krakkarnir fengu gos og kex. Á þessum tíma voru menn sjálfir að vinna í fjáröflunum vegna ferða sem þurfti að fara. Menn æfðu meira að segja í kabarett og fengu félaga sína með sér. Þá voru foreldrar minna í þessu, heldur fyrst og fremst stjórnarmenn. Nú eru foreldrafélög áberandi í öllu starfi og foreldrar virkir þátttakendur með börnunum. Pétri finnst mikill munur á þeim þáttum.
– Aðstaðan hefur nú talsvert breyst? „Aðstæður voru með allt öðrum hætti á þessum árum. Hvorki gras, né hvað þá gervigras. Aðalvöllurinn var efst á eyrinni. Keppnisvöllur og helsti æfingavöllurinn var þar sem Eyrargötublokkirnar eru nú. Hann var kallaður völlurinn á Grund. Efra markið var nánast við Túngötuna og hitt niður við Þumlungsgötu. Það var hver þumlungur nýttur og hornið á Grund var nánast inni á vellinum. Þarna voru líka girðingarstólpar og slár alveg við völlinn þar sem menn gátu legið eða hallað sér fram á meðan þeir horfðu á leikina.“
– En þú hefur nú gert fleira en að sinna íþróttamálunum? Þú varst lengi einn af mest áberandi verkalýðsleiðtogum á landinu. Hvernig kom það til? „Það var þannig að maður var alls staðar í félagsmálunum þar sem maður var. Ég fór svo á sjóinn, fór í Vélskólann og lærði vélvirkjun. Ég vann um skeið hjá Rafmangsveitum ríkisins og tók þátt í starfi Vélstjórafélagsins. Þannig hófust afskiptin af verkalýðsmálum. Og svo gerist það árið 1970 að ég verð forseti Alþýðusambands Vestfjarða og fer í fullt starf þar. Það var mikil barátta á þeim vígstöðvum líka.“
Lítil pólitík í íþróttunum – Þið sem voruð í forsvari fyrir íþróttafélögin tengdust sumir stjórnmálum. Var ekki einhver pólitík í spilunum hjá íþróttafélögunum? „Það hafa sjálfsagt einhverjir viljað klína pólitík í þetta. En þetta var í raun ekkert af því tagi. Fólk sem tengdist í íþróttafélögunum var aðallega kunningjar, fjölskyldur og fólk sem bjó á ákveðnum svæðum.“
“Pétur og frú Hjördís Hjartardóttir á mótinu í fyrra. Ljósm.: bb.is”
Þannig er nú það. Hér hefur verið stiklað á stóru og ekki allt komist að. Pétur er ekki hættur afskiptum af íþróttum þótt hann sé kominn hátt á áttræðisaldur. Hann hefur verið virkur þátttakandi í Stóra-Púkamótinu í knattspyrnu sem verður haldið nú í þriðja sinn um næstu helgi. Pétur er kannski dæmigerður bogmaður. Hinn dæmigerði bogmaður er athafnamaður sem þarf hreyfingu, líf og fjölbreytni. Honum er illa við vanastörf og verkefni sem ekki eru ögrandi. Hann fær leið á því sem hann kann og veldur of auðveldlega. Að sama skapi á hann erfitt með að sitja lengi kyrr á sama staðnum. Þrátt fyrir það hefur Pétur í raun aldrei haldið sig að ráði annars staðar en á Ísafirði.
Stefán Jóhann Stefánsson skrásetti þetta í júlíbyrjun 2007.
|